8-liða úrslit Mjólkurbikarsins framundan
Framundan eru 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Leikið verður karlamegin á miðvikudag og fimmtudag, en kvennamegin á föstudag og laugardag.
ÍBV og Víkingur R. mætast á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í Mjólkurbikar karla á miðvikudag og í sömu keppni leika KR og Njarðvík á Meistaravöllum í Vesturbæ Reykjavíkur, einnig á miðvikudag. Á fimmtudeginum eru svo seinni tveir leikirnir í 8-liða úrslitum karla. Þar mætast annars vegar Breiðablik og Fylkir á Kópavogsvelli, en hins vegar FH og Grindavík á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði.
Á föstudag og laugardag er síðan leikið í Mjólkurbikar kvenna - tveir leikir hvorn dag. Á föstudeginum mætast annars vegar KR og Tindastóll á Meistaravöllum, en hins vegar ÍA og Fylkir á Norðurálsvellinum á Akranesi. Laugardagsleikirnir eru síðan viðureignir Selfoss og HK/Víkings á Jáverk-vellinum á Selfossi, og Þórs/KA og Vals á Þórsvelli á Akureyri.
Dregið verður í undanúrslit Mjólkurbikars karla og kvenna í höfuðstöðvum KSÍ á mánudag kl. 12:00.
Smellið hér að neðan til að skoða leikina nánar.
Smellið hér að neðan til að skoða fyrri viðureignir liðanna.