2221. fundur stjórnar KSÍ - 13. júní 2019
Mættir: Guðni Bergsson formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Mættir varamenn: Þóroddur Hjaltalín (tók sæti fyrir Ragnhildi Skúladóttur) og Guðjón Bjarni Hálfdánarson (tók sæti fyrir Gísla Gíslason).
Mættur formaður ÍTF: Haraldur Haraldsson.
Mættur framkvæmdastjóri KSÍ: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.
Gestir: Lúðvík S. Georgsson formaður leyfisráðs KSÍ sat fundinn þegar rætt var um dagskrárlið 1 og þeir Ómar Smárason og Stefán Sveinn Gunnarsson starfsmenn KSÍ sátu fundinn þegar rætt var um dagskrárlið 2.
Forföll: Gísli Gíslason varaformaður og Ragnhildur Skúladóttir.
Þetta var gert:
- Lúðvík S. Georgsson formaður leyfisráðs KSÍ greindi stjórn frá leyfiskerfi UEFA og KSÍ, fór yfir sögu kerfisins og þeim árangri sem náðst hefur hér á landi með því. Í upphafi tók stjórn KSÍ þá ákvörðun að hafa eitt kerfi en ekki sérkerfi fyrir Evrópufélögin. Ný útgáfa reglugerðarinnar tók gildi í vetur og í þeirri útgáfu er m.a. gerðar kröfur um læknisskoðum yngri leikmanna (4. flokkur og eldri). Formaður leyfisráðs og leyfisstjóri hafa fundað með fulltrúum landlæknis um málið. Stjórn ræddi ýtarlega um kröfur UEFA og velti upp spurningum um m.a. ábyrgð, framkvæmd, , persónuverndarlög og kostnað félaganna í efstu deild. Haraldur Haraldsson tók sérstaklega undir áhyggjur af þessum kostnaði og taldi hann mikilvægt að ná utan um málið til að allar stærðir séu ljósar. Leita þurfi allra leiða til að fá UEFA til að taka þátt í kostnaðinum. Ingi Sigurðsson tók undir áhyggjur Haraldar og stjórnar og minnti á fyrri bókun sína frá fundi stjórnar þann 22. nóvember 2018 um málið.
KSÍ þarf að skila til UEFA endurskoðaðri reglugerð í lok október. Stjórn sammála um að greina þurfi málið betur með aðkomu leyfisráðs, fulltrúa landlæknis/heilsugæslunnar og fulltrúa heilbrigðisnefndar KSÍ.
Í nýrri útgáfu Leyfisreglugerðarinnar er einnig fjallað um leyfiskerfi kvenna og gerð sú krafa að frá 2020 undirgangist það félag sem tekur þátt í Evrópukeppni leyfiskerfi UEFA. Það er skoðun formanns leyfisráðs að KSÍ eigi að taka upp leyfiskerfi í efstu deild kvenna sem verði sambærilegt við núverandi kerfi í 1. deild karla. Mjög takmarkaður viðbótarkostnaður fyrir viðkomandi félög. Stjórn KSÍ var sammála skoðun formanns leyfisráðs.
Stjórn þakkaði Lúðvík kærlega fyrir hans mikla framlag í leyfismálum KSÍ.
Lúðvík vék af fundi.
Stjórn KSÍ samþykkti að Haraldur Haraldsson taki að sér að fylgja málinu eftir, þ.e. að vera tengiliður milli stjórnar og leyfisstjórnar varðandi næstu skref í málinu.
Ómar Smárason og Stefán Sveinn Gunnarsson starfsmenn KSÍ tóku sæti á fundi.
- Ómar Smárason og Stefán Sveinn Gunnarsson kynntu stjórn KSÍ þá vinnu sem hefur átt sér stað varðandi vörumerki og búningamál KSÍ. Stjórn KSÍ lýsti yfir ánægju með framgang málsins.
Ómar og Stefán véku af fundi.
- Fundargerð síðasta fundar
- Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt rafrænt.
- Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt rafrænt.
- Fundargerðir nefnda/starfshópa lagðar fram til kynningar:
- Dómaranefnd KSÍ 4. júní 2019
- Fjárhags- og eftirlitsnefnd 15. maí 2019
- Mótamál
- Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar upplýsti stjórn um það sem efst er á baugi í mótamálum sambandsins.
- Mót meistaraflokka 2019 hafa gengið vel en að venju hefur þurft að færa nokkra leiki.
- Mótanefnd skoðar nú hvort ástæða sé að breyta vinnulagi í tengslum við færslur á leikvöllum í 2. deild karla og 1. deild kvenna fyrir næstu leiktíð.
- Mótastjóri, formaður og varaformaður mótanefndar funduðu með formanni og framkvæmdastjóra ÍTF 15. maí.
- Mót yngri flokka ganga almennt vel. Mótin byrjuðu fyrr en áður. Eins og þátttökuliðum var kynnt í aðdraganda Íslandsmóta yngri flokka mun mótanefnd ekki samþykkja flutning leikja aftur fyrir 1. ágúst.
- Það er fagnaðarefni að U15 landsliði kvenna hefur verið boðin þátttaka á móti/leikjum í Vietnam 30. ágúst – 6. september. Ef af verður mun ferðin hafa röskun í för með sér á Íslandsmóti 3. flokks kvenna. Mótanefnd mun gera þær ráðstafanir sem hægt er til þess að hægt verði að ljúka mótum þessa aldursflokks. Ekki verða gerðar breytingar á leikjum í 4. fl. kvenna í tengslum við þessa ferð.
- Nefndin hefur áður fjallað um nauðsyn þess að gera breytingu á reglugerð KSÍ um knattspyrnumót til að minnka vægi markatölunnar í úrslitakeppnum 5. og 4. flokks. Það er von nefndarinnar að hægt verði að koma þessu í gegn fyrir komandi úrslitakeppnir.
- Heimsóknir til aðildarfélaga – Verkefnalisti mótanefndar: Mótanefnd hefur nú farið yfir um 100 ábendingar sem teknar hafa verið saman í tengslum við heimsóknir til aðildarfélaga og mun nú vinna úr þeim í verkefnahópum og afgreiða þær fyrir fund stjórnar KSÍ í ágúst.
- Dómaramál
- Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar upplýsti stjórn um það sem efst er á baugi í dómaramálum sambandsins. Góðar heimtur í síðustu þrekprófum dómara en á sama tíma höfum við misst dómara í erfið meiðsli.
- Vinnuhópur dómaranefndar er að vinna úr því sem kom út úr heimsóknum til félaga, m.a. hvernig er hægt að fjölga í dómarastéttinni og auka samskipti milli dómarastjóra félaganna og KSÍ.
- Landsliðsmál
- UEFA hefur boðið U15 ára landsliði kvenna á boðsmót í Víetnam. Tímasetning mótsins er óheppileg m.t.t. innlends mótahalds en um er ræða gott tækifæri sem erfitt er að hafna.
- Viðar Halldórsson hefur komið inn í hlutastarf með A landsliði kvenna sem hugarfarsþjálfari og Ólafur Árnason með A landsliði karla. Báðar þessar ráðningar eru tímabundnar og verða metnar sérstaklega.
- Rætt um heimaleiki A landsliðs karla, gegn Albaníu 8. júní og Tyrklandi 11. júní. KSÍ mun senda UEFA skýrslu um þá atburði sem upp komu í tengslum við leik Íslands og Tyrklands. Þá var og rætt um aðstæður á Laugardalsvelli, m.a. vöntun á vökvunarkerfi.
- Önnur mál
- Þorsteinn Gunnarsson formaður starfshóps um útbreiðslumál ræddi um þau útbreiðsluverkefni sem munu eiga sér stað í sumar og um stefnumótun í grasrótarmálum.
- Stjórn samþykkti að vísa tillögu frá ársþingi um endurskoðun kvennaknattspyrnu til landsliðsnefndar A kvenna.
- Haraldur Haraldsson spurði um úthlutun miða á úrslitaleik meistaradeildar UEFA. Framkvæmdastjóri KSÍ útskýrði úthlutunarferlið fyrir stjórn.
- Þorsteinn Gunnarsson og Guðjón Bjarni Hálfdánarson spurðu um málsmeðferðarreglur aga-og úrskurðarnefndar og áfrýjunardómstóls KSÍ. Framkvæmdastjóri skýrði regluverkið.
- Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar ræddi um umsókn KR í mannvirkjasjóð vegna vökvunarkerfis, en umrædd umsókn hefur ekki fengið formlega afgreiðslu. Mannvirkjanefnd mun fjalla um umsókn KR og í framhaldi af því senda stjórn tillögu um afgreiðslu málsins.
- Rætt um Laugardalsvöll. Guðni Bergsson formaður upplýsti um að fyrsti fundur undirbúningsfélags um framtíð Laugardalsvallar hefði farið fram. Þá staðfesti Guðni að bréf frá KSÍ til Reykjavíkurborgar um rekstararsamning vallarins og ástand vallarins hafi verið sent og í framhaldi af því mun formaður og framkvæmdastjóri funda með fulltrúa Reykjavíkurborgar.
- Ingi Sigurðsson upplýsti stjórn um að starfshópur um ferðakostnað muni skila stjórn tillögum í ágúst. Einnig upplýsti Ingi að starfshópnum hafi borist til umfjöllunar þau atriði er komu út úr heimsóknum til aðildarfélaga og lutu að ferðakostnaði.
Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 18:45.