• fim. 13. jún. 2019
  • Landslið
  • A kvenna

A kvenna - Markalaust jafntefli gegn Finnlandi

Ísland gerði markalaust jafntefli við Finnland, en leikið var í Turku. Liðin mætast aftur á mánudaginn.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafn, en þó án þess að hvorugt liðið skapaði sér eitthvað að ráði. Ísland átti fyrsta færi leiksins, eftir darraðadans í teignum fór boltinn af Elínu Mettu Jensen og í slánna. Stelpurnar voru þar nálægt að taka forystuna.

Eftir rúmlega tíu mínútur áttu Finnar sitt fyrsta færi þegar Sandra Sigurðardóttir varði skot þeirra vel í horn. Fjórum mínútum síðar var Fanndís Friðriksdóttir nálægt því að skora, en markmaður Finna varði vel.

Ísland náði að byggja upp ágætar sóknir á næstu mínútum en ekki gekk að opna glufur í vörn Finna. Um miðjan síðari hálfleik tóku Finnar hægt og bítandi völdin og áttu nokkur skot að marki Íslands, en Sandra Sigurðardóttir var ekki í teljandi vandræðum með þau.

Staðan því markalaus þegar dómari leiksins flautaði til leikhlés.

Fyrsta færi síðari hálfleiks kom eftir um tveggja mínútna leik. Finnar fengu boltann inn í vítateig Íslands en Sandra varði vel skotið. Nokkrum mínútum síðar varði Sandra aftur skot úr teignum.

Á 59. mínútu komu Hlín EIríksdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir inn á og útaf fóru þær Fanndís og Hallbera Guðný Gísladóttir. Fljótlega eftir skiptinguna fékk Ísland sitt fyrsta færi í síðari hálfleik. Aukaspyrna utan af kantinu rataði á kollinn á Dagnýju Brynjarsdóttur en skalli hennar fór beint á markvörð Finnlands.

Leikurinn róaðist töluvert eftir þetta og liðin skiptust á að halda boltanum ágætlega. Þegar um fimmtán mínútur voru eftir af leiknum átti Hlín sendingu fyrir á Dagnýju, en skot hennar fór yfir. Finnar héldu áfram að halda boltanum vel og settu ágæta pressu á íslensku vörnina. Sandra varði vel skot úr teignum stuttu síðar.

Á 82. mínútu komu þær Margrét Lára Viðarsdóttir, Ásta Eir Árnadóttir og Alexandra Jóhannsdóttir inn á, útaf fóru Dagný, Anna Björk Kristjánsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.

Mínútu síðar voru Finnar nálægt því að taka forystuna, en skot þeirra við markteiginn fór langt yfir. Í lok leiksins voru Finnar nálægt því að tryggja sér sigurinn, en Sandra komst inn í hættulega fyrirgjöf þeirra.

Hvorugu liði tókst að skora í uppbótartíma og markalaust jafntefli staðreynd.

Liðin mætast af 17. júní og hefst sá leikur einnig kl. 15:30 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Youtube vef KSÍ.

 

 

1112