Pistill formanns KSÍ: Framtíðin er núna
Nú er íslenska fótboltasumarið komið á fulla ferð. Tíðin hefur verið góð og vellirnir hafa komið vel undan vetri, grasið og gervigrösin iðagræn. Þróunin virðist vera sú að mörg félaganna eru að kjósa gervigrasið á sína keppnisvelli fyrst og fremst vegna aukinna nýtingarmöguleika sem því fylgir og stöðugleika í vallargæðum. Þetta mun leita jafnvægis en ég vona að við sjáum ekki á eftir öllum okkar náttúrulegu grasvöllum. Þeir bjóða upp á viss gæði og sjarma sem gaman er að upplifa sem leikmaður og áhorfandi.
Keppnistímabilið finnst mér hafa farið vel af stað. Pepsi Max deild karla er jöfn og spennandi og gaman að sjá spútnik lið Skagans byrja með látum. Íslandsmeistarar Vals byrja illa, en það bara sýnir að það er ekkert gefið í þessu, enda er deildin jöfn og erfið. Pepsi Max deild kvenna er að taka á sig mynd. Breiðablik og Valur byrja vel og það er leikið til sigurs, þar sem jafntefli sjást ekki. Neðri deildirnar eru svo ekki síðri skemmtun þar sem allir vilja upp um deild. Það er allt að gerast svo ég tali nú ekki um yngri flokkana. KSÍ skipuleggur ríflega 6000 leiki á ári og það er í nógu að snúast.
Yfirmaður knattspyrnusviðs, Arnar Þór Viðarsson, er kominn til starfa. Hann hefur fundað með yfirþjálfurum félaganna og er byrjaður að heimsækja aðildarfélögin. Ég er sannfærður um að þessi samvinna mun leiða gott af sér og við munum sjá þess merki fljótlega. Þetta er engu að síður langtímaplan í því að styrkja þjálfun okkar leikmanna á öllum sviðum, frá grasrótinni til A-landsliðanna. Eins gott og starfið okkar er þá er gott til þess að vita að við getum enn bætt okkur á ýmsum sviðum, sem er ekki óeðlilegt í samanburði við fjölmennar knattspyrnuþjóðir og stærri félög á meginlandi Evrópu. Þess vegna verðum við að vera framsækin, vinna saman og samnýta þekkinguna okkar.
Við verðum alltaf að horfa til framtíðar og þess vegna eru yngri landsliðin okkur svo mikilvæg. Góður árangur hefur verið að nást með yngri landsliðum sem hafa verið að komast í milliriðla, og svo ber hæst árangur U17 landsliðs karla sem komst í úrslitakeppni EM á Írlandi. Strákarnir unnu frækinn sigur gegn Rússum 3-2 og voru síðan, þegar korter lifði af síðasta leik, með stöðu sem hefði komið þeim áfram í 8-liða úrslit, en náðu ekki að landa jafntefli gegn Portúgölum í þeim leik og duttu út. Þarna sá maður ýmsa framtíðarleikmenn og það verður spennandi að fylgjast með þeim og öllum ungu leikmönnunum okkar á næstu árum.
Að því sögðu þá eru framundan tveir stórleikir á Laugardalsvellinum, gegn Albönum og Tyrkjum 8. og 11. júní, í undankeppni EM 2020. Við erum á kúrs má segja í riðlinum með 3 stig eftir tvo útileiki á móti Andorra og heimsmeisturum Frakka. Karlalandsliðið hefur farið í gegnum nokkuð erfiða tíma undanfarið ár hvað úrslit leikja varðar, en á sama tíma þó upplifðum HM saman í Rússlandi. Við verðum að sjá þetta í samhengi hlutanna og líta einnig til þeirra sterku andstæðinga sem að við höfum leikið gegn og þeirra meiðsla sem við höfum glímt við. Leikmenn eru ekki vélar og karlaliðið hefur staðið sig með ólíkndum vel undanfarin ár. Nú mun virkilega reyna á leikmenn að stimpla sig inn í þessa keppni, sýna að það er nóg eftir á tankinum og að hungrið sé enn til staðar eftir velgengni síðustu ára. Við vinnum saman og töpum saman. Nú er tími til þess að stíga upp og fyrir okkur að styðja við liðið okkar.
A landslið kvenna hefur síðan verið að gera góða hluti undanfarið undir stjórn nýs þjálfara í Jóni Þór Haukssyni með Ian Jeffs sér til aðstoðar. Þar hafa ákveðin kynslóðaskipti verið að eiga sér stað og greinilegt að með liðsvali sínu fyrir komandi tvo vináttuleiki við Finnland ytra í júní þá er verið að horfa til framtíðar og áframhaldandi uppbyggingar. Við ætlum okkur í lokakeppni EM 2021 og leiðin okkar til Englands liggur í gegnum riðilinn sem byrjar í haust með tveimur heimaleikjum. Þá verðum við að mæta á völlinn og styðja kvennaliðið okkar til sigurs. Það var algjörlega stórkostlegt að sjá fullan Laugardalsvöll á leiknum við Þýskaland síðasta haust og stemmningin var mögnuð. Vonandi upplifum við fleiri kvennalandsleiki á næstu árum með þjóðarleikvanginn troðfullan.
Talandi um heimaleiki þá er nú loksins að hefjast lokaáfangi í ákvörðunarferlinu með uppbyggingu Laugardalsvallar. Stjórn undirbúningsfélagsins, sem ákveðið var að stofna fyrir rúmu ári síðan, er að fara að hefja störf. Það verður að segjast að það hefur tekið of langan tíma að koma þessu í gang af hálfu stjórnvalda en nú er þetta loksins að byrja og ég er bjartsýnn á að við munum komast að góðri niðurstöðu fyrir íslenskan fótbolta og samfélagið okkar. Í ljósi mótsleikja að vetri til hjá karlalandsliðinu og möguleikanna sem fylgja fjölnota leikvangi fyrir fótboltann allan og samfélagið í heild sinni, þá trúi ég því að það verði lokaniðurstaðan í þessu, okkur öllum til heilla. Laugardalsvöllur er nú á undanþágu með vallarleyfi og stenst engan veginn nútímakröfur til þjóðarleikvanga. Það er réttlætanlegt og í raun nauðsynlegt að fara í þannig framkvæmdir á þjóðarleikvanginum, nú sem orðið er á 60 ára fresti, í ljósi þess hvað fótboltinn og íþróttir almennt þýða fyrir samfélagið. Sýnum metnað og samstöðu í þessu eins og við gerðum þegar Laugardalsvöllur var fyrst byggður af stórhug fyrir öllum þessum árum.
Á síðasta ári tók KSÍ þátt í verkefni með Krafti – félagi ungs fólks með krabbamein. „Lífið er núna“ voru einkunnarorð þess verkefnis. Grípum þessi orð á lofti og mótum framtíð íslenskrar knattspyrnu saman.
Framtíðin er núna!