• mán. 27. maí 2019
  • Fundargerðir

2220. fundur stjórnar KSÍ - 15. maí 2019

Mættir:  Guðni Bergsson formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson. 
Mættir varamenn:  Guðjón Bjarni Hálfdánarson (tók sæti á fundi kl. 16:25) og Þóroddur Hjaltalín.
Mættur formaður ÍTF:  Haraldur Haraldsson.
Mættir landshlutafulltrúar:  Jakob Skúlason (VL), Björn Friðþjófsson (NL), Bjarni Ólafur Birkisson (AL)  og Tómas Þóroddsson (SL)

Þá sat Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fundinn og ritaði fundargerð.   

Forföll:  Gísli Gíslason varaformaður og Jóhann Torfason varamaður í stjórn.

Þetta var gert:  

  1. Fresta þurfti umræðu um leyfiskerfi KSÍ þar sem Lúðvík S. Georgsson formaður leyfisráðs KSÍ komst ekki á fundinn.  Stefnt er að því að taka málið upp á næsta fundi.  

  2. Fundargerð síðasta fundar
    • Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt rafrænt.

  3. Fundargerðir nefnda/starfshópa lagðar fram til kynningar:
    • Landsliðsnefnd U21 karla, 24. apríl 2019
    • Unglinganefnd kvenna, 2. maí 2019
    • Starfshópur um ferðakostnað 2. júní 2018, 20. október 2018 og 31. janúar 2019
    • Mannvirkjanefnd KSÍ 10. maí 2019
    • Landsliðsnefnd kvenna 8. maí 2019
    • Landsliðsnefnd karla 10. maí 2019
    • Fjárhagsnefnd 11. apríl 2019
    • Dómaranefnd 7. maí 2019

  4. Fjármál
    • Á milli funda staðfesti stjórn á rafrænum fundi sínum að taka upp notkun greiðslukorta fyrir landslið til þess m.a. að greiða flug-og gistikostnað.  Þetta er skv. tillögu fjárhags-og eftirlitsnefndar sambandsins og er markmiðið m.a. að ná fram hagræðingu og til að koma til móts við athugasemdir varðandi rekjanleika í endurskoðun FIFA. 
    • Framkvæmdastjóri kynnti drög að 3ja mánaða uppgjöri sambandins.  Miðað við fyrirliggjandi gögn er rekstur sambandsins að mestu leiti í samræmi við áætlanir en gæta þarf aðhalds í rekstri, sérstaklega hvað varðar kostnað við landsliðsverkefni.
    • Stjórn lýsti yfir áhyggjum af rekstri Laugardalsvelli.  Ljóst er að tekjur vallarins verða minni á árinu en gert var ráð fyrir og ólíklegt er að útgjöld lækki miðað við áætlun.  Stjórn telur rétt að senda Reykjavíkurborg bréf þar sem óskað er eftir viðræðum um samninginn og rekstur vallarins.

  5. Mannvirkjamál
    • Í samræmi við tillögu mannvirkjanefndar um vallarleyfi staðfesti stjórn að eftirtaldir vellir hafi uppfyllt þá fyrirvara sem settir voru á síðasta stjórnarfundi:
    • Akureyrarvöllur, vallarleyfi til 16.10.2019
    • Hásteinsvöllur, vallarleyfi til 31.12.2019
    • Framvöllur, gervigras, vallarleyfi til 31.12.2020
    • Varmárvöllur, gervigras, vallarleyfi til 31.12.2020
    • Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynntu umsóknir í mannvirkjasjóð KSÍ.  32 umsóknir bárust í mannvirkjasjóð 2019 og er heildarkostnaður við áætlaðar framkvæmdir tæpir 3,5 milljarðar kr.  Til úthlutunar úr sjóðnum á árinu 2019 eru 50 milljónir.  Á fundum mannvirkjanefndar þann 11. apríl og 10. maí fóru nefndin og framkvæmdastjóri KSÍ yfir allar innsendar umsóknir og var unnið heildstætt mat á öllum umsóknum.  Nefndin mat allar umsóknir með gildandi skorkorti út frá innsendum upplýsingum og útbjó þannig lista með einkunnagjöf sem er grunnurinn að tillögu nefndarinnar og framkvæmdastjóra til stjórnar KSÍ.

    • Stjórn KSÍ samþykkti neðangreinda úthlutun úr mannvirkjasjóði KSÍ 2019 en ítrekar að þau skilyrði sem sett eru í gildandi reglugerð varðandi greiðslur úr sjóðnum verði uppfylltar.* 

      Félag / umsókn Úthlutun
      Breiðablik - endurnýjun gervigras í Fagralundi 4.500.000
      Breiðablik - flóðlýsing á Kópavogsvelli 4.500.000
      Breiðablik - gervigras á Kópavogsvöll, hitalagnir og vökvunarkerfi 3.500.000
      Einherji - Vallarhús, nýbygging 10.000.000
      FH - Nýbygging, knatthúsið Skessan 3.250.000
      FH - Gervigras í knatthúsið Skessuna 7.000.000
      Grindavík - Uppbygging aðstöðu við stúku og knatthúsið 7.000.000
      Höttur - Endurnýjun varamannaskýla á Vilhjálmsvelli/Fellavelli 700.000
      Huginn - Endurnýjun grasvallar 3.000.000
      ÍBV - Nýir búningsklefar á Hásteinsvelli 3.250.000
      Magni - Vallarhús og stúka 2.000.000
      Valur - Varamannaskýli á Friðriksvöll 300.000
      Þróttur Vogum - Varamannaskýli og aðstaða við Vogabæjarvöll 1.000.000

      *Fyrirvari var gerður við samþykktina þar sem í ljós kom á stjórnarfundi að ein umsókn sem barst skrifstofu KSÍ hefði ekki borist mannvirkjanefnd og þar með ekki verið metin með hliðsjón af skorkorti mannvirkjanefndar á sama hátt og aðrar umsóknir.  Mannvirkjanefnd ákvað í framhaldinu að sú umsókn yrði tekin til umfjöllunar við næstu úthlutun úr sjóðnum.


  6. Mótamál
    • Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar upplýsti stjórn um það sem efst á baugi í mótamálum sambandsins.
    • Lengjubikarnum er lokið í öllum flokkum og eru sigurvegarar eftirfarandi:
      • A-deild karla – KR
      • B-deild karla – Selfoss
      • C-deild karla – Snæfell
      • A-deild kvenna – Breiðablik
      • B-deild kvenna – Fylkir
      • C-deild kvenna – Þróttur R
    • Meistarakeppni KSÍ er lokið með sigri Breiðabliks í mfl. kvenna og Stjörnunnar í mfl. karla.
    • Mjólkurbikarinn er í fullum gangi.  Dregið var í 16-liða úrslitum 3. maí hjá körlum og var leikjaniðurröðun staðfest fyrr í dag.  Vegna úrslitaleiks Evrópudeildar UEFA sem verður miðvikudaginn 29. maí þurfti að gera breytingar á fjórum leikjum frá því sem gert var ráð fyrir í drögum.   Dregið verður í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna föstudaginn 17. maí.
    • Íslandsmót eru hafin í öllum deildum karla og kvenna, nú síðast í gær með keppni í 4. deild karla.
    • Öll Íslandsmót yngri flokka eru hafin að undanskildum Hnátu- og Pollamóti 6. flokka.  Mót yngri flokka voru staðfest 15. apríl og er það fyrr en áður hefur verið.  Á sama tíma var öllum félögum tilkynnt að þeim er óheimilt að fresta leikum aftur fyrir 1. ágúst. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að einstök lið eigi óleikna leiki við lok móts og trufli framkvæmd úrslitakeppna.

  7. Dómaramál
    • Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar upplýsti stjórn um það sem efst á baugi í dómaramálum sambandsins.
    • Dómaranefnd er sammála um dómarar hafi byrjað tímabilið vel en áhyggjuefni er hversu margir deildadómarar eru ekki tiltækir til starfa. 
    • Stjórn samþykkti tillögu dómaranefndar um að taka inn sex nýja deildadómara:
      • Birgir Þór Þrastarson, Akureyri
      • Elvar Smári Arnarsson, Akranes
      • Guðni Þór Þórsson, Hafnarfjörður
      • Sveinn Arnarsson, Akureyri
      • Sveinn Þórður Þórðarson, Akureyri
      • Þórður Már Gylfason, Akranes
    • Framkvæmd nýrra ákvæða í knattspyrnulögunum hefur gengið vel. 
    • Rætt um ýmsar hugmyndir varðandi fjölgun ofl. í dómgæslu og mun Þóroddur taka þær hugmyndir á næsta fund í dómaranefnd.

  8. Landsliðsmál
    • U17 ára landslið karla tók þátt í úrslitakeppni EM í Dublin fyrr í maí.  Herslumuninn vantaði að liðið kæmist upp úr sínum riðli.  Mikil ánægja er með frammistöðu liðsins og starfsmenn þess.  Gylfi Már Sigurðarson aðstoðardómari er ennþá að störfum á mótinu. 
    • Guðni Bergsson formaður KSÍ fékk umboð stjórnar til að ganga frá samningum við leikmenn A landsliðs karla vegna úrslitakeppni EM2020.

  9. Önnur mál
    • Þorsteinn Gunnarsson formaður starfshóps um útbreiðslumál ræddi um stefnumótun útbreiðslumála og verkefni ársins.  Ánægjuefni er hversu mikið af gögnum er til um stöðu mála.
    • KSÍ hefur móttekið beiðni frá ÍSÍ um skipan fulltrúa í tvo starfshópa.  Stjórn samþykkti að skipa Ómar Smárason í starfshóp um rafleiki og Ásgeir Ásgeirsson í starfshóp um rekstur félaga.  Framkvæmdastjóra falið að staðfesta skipanina til ÍSÍ. 
    • Valgeir Sigurðsson ræddi um heimsóknir til aðildarfélaga og úrvinnslu úr skýrslum um heimsóknirnar.  Búið er að flokka ábendingar sem fram kom í skýrslunum í ákveðna efnisflokka og fer nú hver flokkur til viðkomandi nefndar (til dæmis mótamál, dómaramál og fræðslu- og útbreiðslumál).  Hver nefnd fjallar um ábendingarnar, tekur afstöðu til þeirra og undirbýr aðgerðarplan með tímamörkum. Gert er ráð fyrir því að hver nefnd kynni sitt aðgerðarplan á fundi stjórnar í ágúst.  Einhverjum málum er þegar lokið eða komið í farveg.  Taka þarf málin saman í lokin og formfesta framkvæmdina.
    • Landshlutafulltrúar gáfu skýrslu um stöðu mála í sínum landsfjórðungi.  Rætt var m.a. um fólksfækkun, samkeppni við aðrar íþróttagreinar, mikilvægi sjálfboðaliða, heimsóknir til aðildarfélaga, vallaraðstæður, stefnumótun ofl. 

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl.  18:45.