FC Sækó æfði á Laugardalsvelli
Knattspyrnufélagið FC Sækó hefur frá árinu 2011 boðið upp á knattspyrnu fyrir fólk með geðraskanir, gefið þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu og að draga úr fordómum. FC Sækó er skipað notendum geð- og velferðarkerfis Reykjavíkurborgar og Landspítalans, starfsmönnum þess og öðrum sem áhuga hafa á að styðja við verkefnið. Árið 2018 fékk FC Sækó gullverðlaun UEFA í flokki Grasrótarverkefni ársins og varð þar með fyrsta verkefnið á Íslandi til að hljóta þann heiður. Á ársþingi KSÍ í febrúar á þessu ári hlaut FC Sækó grasrótarverðlaun KSÍ.
Sumarið 2019 munu leikmenn FC Sækó og leikmenn frá Öspinni æfa einu sinni í mánuði á Laugardalsvelli undir handleiðslu þjálfara frá KSÍ. Fyrsta Laugardalsvallar-æfingin var haldin mánudaginn 20. maí síðastliðinn, þar sem Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ og þjálfari U21 landsliðs karla, stjórnaði æfingunni, ásamt aðstoðarþjálfara U21 landsliðsins, Eiði Smára Guðjohnsen.