U17 karla - 2-4 tap gegn Portúgal
Ísland tapaði 2-4 fyrir Portúgal í síðasta leik sínum á EM 2019. Ísak Bergmann Jóhannesson og Mikael Egill Ellertsson skoruðu mörk Íslands.
Leikurinn var jafn til að byrja með og fyrsti möguleiki strákanna á marki var á 8. mínútu. Brotið var á Róbert Orra Þorkelssyni úti á kanti, Andri Fannar Baldursson tók aukaspyrnuna en Jón Gísli Eyland Gíslason skallaði boltann framhjá. Tveimur mínútum síðar áttu Portúgal skot rétt framhjá marki Íslands.
Á 12. mínútu komst Ísak Bergmann Jóhannesson upp að endamörkum, sendi fastan bolta fyrir en Portúgal náði að koma boltanum í horn.
Bæði liðin héldu boltanum ágætlega sín á milli en áttu erfitt með það að skapa sér opin færi. Portúgal áttu skot á 19. mínútu sem fór í hliðarnetið á marki Ólafs Kristófers Helgasonar.
Leikurinn hélt áfram að vera jafn, en þó lítið um færi. Það breyttist á 32. mínútu þegar Portúgal skoraði fyrsta mark leiksins. Eftir góð fyrirgjöf skoraði Bruno Tavares.
Strákarnir voru hins vegar ekki lengi að svara fyrir sig. Aðeins fimm mínútum síðar jöfnuðu þeir metin þegar Ísak Bergmann setti boltann í netið eftir góða sendingu Andra Lucas Guðjohnsen.
Staðan því 1-1 í hálfleik.
Portúgal byrjaði síðari hálfleikinn frábærlega og skoraði Fabio Silva annað mark þeirra strax í upphafi hans. Staðan því orðin 2-1.
Fyrsta skipting Íslands kom á 55. mínútu þegar Kristall Máni Ingason kom inn á, en útaf fór Davíð Snær Jóhannsson. Stuttu síðar áttu strákarnir gott færi þegar Ísak Bergmann átti skalla að marki en Samuel Soares varði vel í mark Portúgal. Um tíu mínútum síðar var komið að Kristal Máni að eiga skalla að marki Portúgal, en aftur varði Soares.
Strákarnir jöfnuðu leikinn þegar 19 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Mikael Egill Ellertsson kom boltanum yfir línuna eftir hornspyrnu, staðan orðin 2-2. Nú voru það Portúgalir sem voru fljótir að svara fyrir sig, en Paulo Bernardo skoraði aðeins fimm mínútum eftir mark Mikaels. Átta mínútum síðar, á 84. mínútu, skoraði Filipe Cruz fjórða mark Portúgal og staðan því orðin 2-4.
Fabio Silva var nálægt því að skora annað mark sitt stuttu síðar, en Ólafur Kristófer varði vel í marki Íslands. Í lok leiks kom Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson inn á fyrir Jón Gísla Eyland Gíslason.