U17 karla - 3-2 sigur gegn Rússlandi í fyrsta leik á EM 2019
Ísland vann góðan 3-2 sigur gegn Rússlandi í fyrsta leik liðsins á EM 2019, en leikið er í Dublin. Fyrsta mark leiksins var sjálfsmark Rússa, en Jón Gísli Eyland Gíslason og Andri Lucas Gðuðjohnsen bættu við tveimur mörkum.
Strákarnir byrjuðu leikinn frábærlega og settu mikla pressu á Rússland strax frá fyrstu mínútu. Á 6. mínútu leit fyrsta færi Íslands dagsins ljós. Andri Lucas fékk þá boltann í teignum en skot hans fór beint á markmann Rússlands.Tíu mínútum síðar var komið að Rússum, en skot þeirra utarlega í teignum fór yfir mark Íslands.
Það var svo á 18. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom. Andri Fannar Baldursson tók þá hornspyrnu sem leikmaður Rússlands skallaði í eigið mark. Staðan orðin 1-0. Strákarnir héldu áfram að setja mikla pressu á mótherja sína og voru oft á tíðum nálægt því að skapa sér góð færi.
Tíu mínútum eftir fyrsta markið kom það næsta. Andri Fannar tók þá hornspyrnu utan af kanti sem Jón Gísli setti í markið. Aðeins fjórum mínútum síðar var komið að Andra Lucas að skora. Brotið var á honum inn í vítateig, hann steig sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.
Fátt markvert gerðist til loka hálfleiksins og staðan 3-0 þegar dómarinn flautaði.
Rússland kom af kraft inn í seinni hálfleikinn og settu nokkuð mikla pressu á íslenska liðið, en þó án þess að skapa sér færi. Á 52. mínútu kom Danijel Dejan Djuric inn á fyrir Mikael Egil Ellertsson.
Rússar héldu áfram að halda boltanum vel og skapa vandræði fyrir Ísland, en á 63. mínútu skoruðu þeir fyrsta mark sitt þegar Ilya Golyatov setti boltann í netið eftir góða fyrirgjöf. Staðan orðin 3-1.
Strákarnir komust betur inn í leikinn eftir markið, þó Rússar væru meira með boltann. Það voru hins vegar Rússland sem skoraði næsta mark leiksins þegar Golyatov skoraði annað mark sitt í leiknum á 79. mínútu. Strax í kjölfarið komu þeir Baldur Hannes Stefansson og Hákon Arnar Haraldsson inn á, en útaf fóru Davíð Snær Jóhannsson og Andri Fannar Baldursson.
Rússland setti mikla pressu á vörn Íslands allt til leiksloka en strákarnir stóðu vörnina frábærlega og lokuðu öllum svæðum. 3-2 sigur í fyrsta leik á EM 2019, en þeir mæta næst Ungverjalandi á þriðjudaginn.