• fim. 02. maí 2019
  • Fundargerðir

2219. fundur stjórnar KSÍ - 11. apríl 2019

Mættir:  Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður (tók sæti á fundi kl. 16:20), Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Ingi Sigurðsson, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson. 
Mættir varamenn:  Jóhann Torfason.
Mættur formaður ÍTF:  Haraldur Haraldsson.

Þá sat Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fundinn og ritaði fundargerð.   

Forföll:  Magnús Gylfason aðalmaður í stjórn, Guðjón Bjarni Hálfdánarson varamaður í stjórn og Þóroddur Hjaltalín varamaður í stjórn.

Þetta var gert:

  1. Fresta þurfti umræðu um leyfiskerfi KSÍ - læknisskoðun yngri leikmanna þar sem Lúðvík S. Georgsson formaður leyfisráðs KSÍ komst ekki á fundinn.  Stefnt er að því að taka málið upp á næsta fundi.  Haraldur Haraldsson óskaði eftir því að einnig yrði rætt um kvaðir um birtingu ársreikninga.  Framkvæmdastjóra falið að láta Lúðvík og Hauk Hinriksson leyfisstjóra vita af framkominni fyrirspurn um ársreikninga.

  2. Fundargerð síðasta fundar
    • Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt rafrænt.

  3. Fundargerðir nefnda lagðar fram til kynningar:
    • Fjárhagsnefnd 14. mars 2019
    • Laga-og leikreglnanefndar 25. mars 2019
    • Dómaranefnd 2. apríl 2019
    • Mótanefnd 4. apríl 2019
    • Starfshópur um útbreiðslumál, 10. apríl 2019
    • Mannvirkjanefnd 11. apríl 2019

  4. Lög KSÍ, reglugerðarbreytingar og starfsreglur stjórnar:
    • Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest ný lög KSÍ fyrir utan grein 14.2, um úthlutun á sæti í stjórn KSÍ til formanns stjórnar ÍTF.  Til að koma til móts við athugasemdir ÍSÍ samþykkti stjórn KSÍ að undirbúa lagabreytingatillögu fyrir næsta ársþing um að þingið staðfesti sæti formanns ÍTF í stjórn. Haraldur Haraldsson formaður ÍTF lagði fram skriflega fyrirspurn frá ÍTF um málið.  Guðni Bergsson formaður tók að sér að svara bréfi ÍTF og taka málið áfram gagnvart ÍSÍ. 
    • Gísli Gíslason kynnti tillögu að uppfærslu á starfsreglum stjórnar.  Stjórn samþykkti tillöguna.  Stjórn lagði áherslu á að fá fundardagskrá fram í tímann.  Formenn nefnda hvattar til að endurskoða starfsreglur sinna nefnda og mun Gísli sjá um að taka starfsreglurnar saman.
    • Stjórn KSÍ samþykkti tillögu til breytinga á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, lán á leikmönnum.  Stjórn samþykkti ennfremur að breytingin taki gildi 16. október 2019.

    Breytingar á greinum 10 og 16
    Reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga.

    Breytingar sem lagðar eru til eru grænmerktar.
    Það sem lagt er til að falli út er rauðmerkt og yfirstrikað

    10. gr. 
    Félagaskipti

    10.1. Félagaskipti leikmanna eru heimil sem hér greinir: 
    10.1.1. Leikmaður getur mest verið skráður í þrjú félög á keppnistímabilinu. Á því tímabili er honum aðeins heimilt að taka þátt í opinberum knattspyrnuleikjum með tveimur félögum, sbr. þó ákvæði um tímabundin félagaskipti í 16. grein og ákvæði um 4. aldursflokk eða yngri í grein. 10.1.4.  Undanþága skal veitt frá þessu þegar leikmaður skiptir um félag á milli landa, og keppnistímabil þeirra skarast þannig að í öðru landinu er tímabilið vor/haust en í hinu haust/vor. Þegar slíkt á við er leikmanni heimilt að leika í opinberum knattspyrnuleikjum með þremur félagsliðum á keppnistímabilinu svo fremi sem öðrum skuldbindingum sé fullnægt.   
    10.1.2. Leikmaður getur aðeins gengið til liðs við íslenskt félagslið á tímabilinu 21. febrúar – 15. maí ár hvert, eða á tímabilinu 1. – 31. júlí. Leikmaður getur þó aðeins einu sinni skipt um félag innanlands eftir að hafa leikið í Íslandsmóti eða bikarkeppni KSÍ á almanaksárinu nema þegar um tímabundin félagaskipti er að ræða sbr. 16. grein eða félagaskipti leikmanns í 4. aldursflokki eða yngri sbr. grein 10.1.4
    10.1.3. Á öðrum tímabilum eru félagaskipti ekki heimil nema fyrir ósamningsbundna leikmenn í yngri aldursflokkum (innanlands og á milli landa) og þegar leikmaður á tímabundnum félagaskiptum skiptir um félag, en þó aldrei eftir 31. júlí til loka keppnistímabilsins.

    16. gr. 
    Tímabundin félagaskipti

    16.3. Lágmarkstími tímabundinna félagaskipta er á milli tveggja félagaskiptatímabila. 1 mánuður og skal telja frá þeim degi sem keppnisleyfi er gefið út. Leikmaður sem hefur fengið tímabundin félagaskipti með lokadagsetningu frá og með 1. ágúst fær keppnisleyfi með samningsfélagi sínu að nýju 16. október sama ár. Hámarkstími tímabundinna félagaskipta skal vera 12 mánuðir en lokadagsetning skal eigi vera síðar en 15. október. Heimilt skal að stytta tímabundin félagaskipti sem skráð hefur verið en þó skal lágmarkstími ævinlega vera 1 mánuður. Í slíku tilfelli skal það gert með tilkynningu um félagaskipti. Tilkynning um tímabundin félagaskipti jafngildir tilkynningu um félagaskipti bæði við upphaf láns og í lok lánstíma.
    16.4. Tímabundin félagaskipti til Íslands skulu að lágmarki ná að næsta félagaskiptatímabili og skulu eiga sér stað innan félagaskiptatímabils.

    • Stjórn KSÍ samþykkti tillögu til breytinga á reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, réttur til greiðslu félagaskiptabóta.

    Breytingar á grein 18.3.
    Reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga.

    Breytingar sem lagðar eru til eru grænmerktar.
    Það sem lagt er til að falli út er rauðmerkt og yfirstrikað

    18. gr.
    Félagaskiptagjald

    18.1. Ef leikmaður, sem hefur verið samningsbundinn, en þeim samningi er lokið, gerir samning við nýtt félag á því almanaksári sem að leikmaðurinn verður 23 ára eða fyrr, skal það greiða fyrra félaginu, sem hann var samningsbundinn við, félagaskiptagjald fyrir, í samræmi við ákvæði 18.2., enda hafi það félag er leikmaðurinn var síðast samningsbundinn við, boðið leikmanninum nýjan samning með sannanlegum hætti a.m.k. 30 dögum áður en að síðasti samningur rann út. Slíkt samningstilboð þarf að vera a.m.k. jafnmikils virði fyrir leikmanninn og sá samningur sem var að renna út. Hafi ekkert slíkt tilboð legið fyrir, kemur ekki til greiðslu félagaskiptagjalds skv. ákvæði 18.2.

    • Stjórn KSÍ samþykkti tillögu til breytinga á reglugerð KSÍ  um knattspyrnumót - leikmannaskiptingar í 2. deild, en um var að ræða tillögu sem samþykkt var á ársþingi í febrúar 2019.

    Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.
    Tillaga að breytingu á grein 23 - Fimm skiptingar í 2. deild karla

    Breytingar sem lagðar eru til eru grænmerktar.
    Það sem lagt er til að falli út er rauðmerkt og yfirstrikað

    23.gr.
    Meistaraflokkur karla

    Leikmannaskipti: Heimilt að setja 3 varamenn inn á í leik. Í 2., 3. og 4. deild er heimilt að setja fimm varamenn inn á í leik. 1 viðbótarskipting er heimiluð í framlengingu.

    • Stjórn KSÍ samþykkti tillögu til breytinga á reglugerð KSÍ  um knattspyrnumót - Persónuskilríki leikmanna – en tillagan var rædd á stjórnarfundi í nóvember 2018 og hefur fengið umfjöllun bæði í mótanefnd- og í laga og leikreglnanefnd.

    Breytingar á grein 3.2
    Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. (Framvísun persónuskilríkja)

    Breytingar sem lagðar eru til eru grænmerktar.
    Það sem lagt er til að falli út er rauðmerkt og yfirstrikað

    3.2 Keppnisleyfi er heimild leikmanns til þátttöku í opinberum knattspyrnuleik, sem fæst sjálfkrafa við fyrstu skráningu í iðkendaskrá KSÍ eða með tilkynningu sem gefin er út af skrifstofu KSÍ í kjölfar félagaskipta. Dómara eða eftirlitsmanni er heimilt að óska eftir því við leikmenn, sem skráðir eru á leikskýrslu í opinberum knattspyrnuleikjum, að þeir sanni á sér deili með framvísun persónuskilríkja.

    • Stjórn samþykkti tillögu til breytinga á reglugerð KSÍ  um knattspyrnumót, bráðabirgðaákvæði vegna leikmannalista og 2. flokks kvenna. 

    Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.
    Tillaga að breytingum á bráðabirgðaákvæðum í greinum 9 og 33.
    Leikmannalistar og 2. flokkur kvenna 2019.

    Breytingar sem lagðar eru til eru grænmerktar.
    Það sem lagt er til að falli út er rauðmerkt og yfirstrikað

    Ákvæði til bráðabirgða 2019
    9.2.3. Noti félag leikmann sem hefur keppnisleyfi en uppfyllir ekki skilyrði greinar 9.2., skal félaginu gefinn frestur til að gera nauðsynlegar úrbætur. Að öðrum kosti skal málinu vísað til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ sem skal beita sektum eða eftir atvikum útilokun leikmannsins frá keppni þar til úrbætur hafa verið gerðar.

    Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót.

    33.gr.
    2. flokkur kvenna

    11 MANNA LIÐ
    Aldur: 19 ára á almanaksárinu og yngri.
    Ákvæði til bráðabirgða 2019:
    Heimilt er að hafa þrjá eldri leikmenn í hverjum leik í 2. aldursflokki kvenna, sem eru 20 - 22 ára á almanaksárinu (konur fæddar 1997, 1998 og 1999) og léku ekki með meistaraflokki félagsins í næsta leik á undan. verði svohljóðandi:

    • Niðurröðun í riðla, tillaga samþykkt á ársþingi 2019.  Mótanefnd vinnur í anda tillögunnar á þessu tímabili líkt og undanfarin ár.  Þegar kemur að þátttökutilkynningum 2020 verður kallað eftir óskum félaga í þessu efni og reglugerðarbreyting undirbúin, en taka þarf tillit til ýmissa annarra reglugerðarákvæða sbr. til dæmis fjölda liða í riðlum/deildum ofl.
    • Hlutgengi yngri flokka, tillaga samþykkt á ársþingið 2019.  Var vísað til mótanefndar á síðasta stjórnarfundi og er bókun nefndarinnar um málið eftirfarandi:     

    Rætt um tillögu á þingskjali 10 sem samþykkt var á síðasta ársþingi KSÍ og stjórn KSÍ vísaði til mótanefndar til frekari skoðunar.  Það er mat nefndarinnar að það sem samþykkt var á ársþinginu hafi áhrif á mun fleiri greinar en þær sem tilgeindar eru á þingskjalinu.  Skoða þurfi hlutgengi milli tveggja B og C liða með samþærilegum hætti.  Jafnfamt telur nefndin að flókið sé að smíða ákvæði sem uppfyllil samþykktina og sé einföld í framkvæmd.  Er hér átt við þann þátt að fylgjast með heildar leikjafölda leikmanna.  Rætt um mögulega útfærslu án niðurstöðu.

    Stjórn samþykkti að fresta reglugerðabreytingum þar til frekari undirbúningsvinna hefur farið fram.  Málinu er því vísað til laga-og leikreglnanefndar til frekari úrvinnslu.

    • Útreikningar á ferðaþátttökugjaldi 2019 lagðir fram til kynningar.   

  5. Skipan í nefndir
    • Framkvæmdastjóri lagði fram drög að lista yfir þá sem hætta í nefndum og sjálfboðaliðastörfum fyrir sambandið en þeim verður sent þakkarbréf fyrir sitt mikilvæga framlag.
    • Rætt um skipan í nefndir og fulltrúa ÍTF í nefndum sambandsins og staðfesta að Mist Rúnarsdóttir tekur sæti í unglinganefnd kvenna, Daði Guðmundsson í unglinganefnd karla og Viggó Magnússon í mannvirkjanefnd.

  6. Mótamál
    • Búið er að staðfesta öll meistaraflokksmót sumarsins nema 2. deild kvenna og 4. deild karla.  Niðurröðun yngri flokka er í lokayfirlestri. 
    • Úrslitaleikir í Lengjubikar framundan. 
    • Miðasöluapp fyrir Pepsi Max og Inkasso deildir fer í loftið vikuna 15.-19. apríl en appið var samvinnuverkefni KSÍ og ÍTF.
    • Kynningarfundur Pepsi Max deildar karla verður miðvikudagurinn 24. apríl.
    • Kynningarfundur Pepsi Max deildar kvenna verður mánudagurinn 29. apríl.
    • Stjórn samþykkti listi yfir sameiginleg félög 2019 í samræmi við ákvæði í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. 
    • Rætt um sjónvarpsmál Pepsi-Max deildar karla og kvenna.

  7. Dómaramál
    • Ingi Sigurðsson nefndarmaður úr dómaranefnd fór yfir sviðið.  Þrekpróf hafa gengið vel og heilt yfir er hópurinn í góðu standi.  Aðalundirbúningsráðstefna dómara fór fram um síðustu helgi og gekk vel. 

  8. Landsliðsmál
    • Lagt var fram minnisblað um þátttöku U17 karla í úrslitakeppni EM.  Áætlaður kostnaður er rúmar 4.000.000.- kr. en ekki var gert ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlun 2019.  Fjárhags-og endurskoðunarnefnd rýndi áætlunina á fundi sínum fyrr í dag og gerir ekki athugasemdir við einstaka kostnaðarliði.
    • Farið var stuttlega yfir gengi annarra landsliða á undanförnum vikum. 

  9. Mannvirkjamál
    • Teknar voru fyrir tillögur mannvirkjanefndar um vallarleyfi.  Stjórn KSÍ samþykkti að veita eftirtöldum völlum vallarleyfi í samræmi við tillögur mannvirkjanefndar:
      • Akureyrarvöllur, vallarleyfi til 16.10.2019 skv. tímabundinni undanþágu.
      • Hásteinsvöllur, vallarleyfi til 31.12.2019 skv. tímabundinni undanþágu.
      • Framvöllur, gervigras, vallarleyfi til 31.12.2020 með fyrirvara um uppfyllt skilyrði leyfiskerfis.
      • Grenivíkurvöllur, vallarleyfi til 31.12.2020.
      • Varmárvöllur, gervigras, vallarleyfi til 31.12.2020 með fyrirvara um uppfyllt skilyrði leyfiskerfis.
    • Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjarnefndar og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynntu umsóknir í mannvirkjasjóð.  31 umsókn bárust í mannvirkjasjóð 2019 og er heildarkostnaður við áætlaðar framkvæmdir tæpir 3.5 milljarðar kr.  Til úthlutunar eru 50 milljónir.  Umsóknirnar eru nú í úrvinnslu hjá mannvirkjanefnd og mun stjórn fá málið til afgreiðslu á næsta stjórnarfundi. 
       
  10. Önnur mál
    • Stjórn KSÍ samþykkti að eftirtaldir verði fulltrúar KSÍ á ÍSÍ þinginu sem fram fer þann 3.-4. maí næstkomandi:
      • Aðalfulltrúar (7):  Guðni Bergsson, Borghildur Sigurðardóttir, Gísli Gíslason, Klara Bjartmarz, Valgeir Sigurðsson, Ásgeir Ásgeirsson og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir. Kolbrún býður sig fram til framkvæmdastjórnar ÍSÍ á þinginu.
      • Varafulltrúar (7): Guðjón Bjarni Hálfdánarson, Þóroddur Hjaltalín, Ragnhildur Skúladóttir, Magnús Gylfason og Þorsteinn Gunnarsson. 
    • Framkvæmdastjóri KSÍ greindi frá heimsókn FIFA 10.-13. apríl þar sem fjallað er um landsliðsmál;  Programme to improve the competitiveness of national teams - Icelandic Football Association
    • Framkvæmdastjóri KSÍ greindi frá ráðstefnu sem FIFA heldur þann 17.- 18. september 2019 hér á landi; Strategic development meeting for MAs from CECAFA, in Iceland   
    • Framkvæmdastjóri staðfesti að erindi ÍTF vegna kosninga á ársþingi hafi verið svarað skriflega.  Laga-og leikreglnanefnd hefur verið að skoða mögulegar reglur um „hegðunarviðmið“ (code of conduct). 
    • Rætt um niðurstöður heimsókna til aðildarfélaga og framhald málsins.  Ingi, Valgeir og Þorsteinn eru að heimsækja þau félög sem ekki náðist að heimasækja á síðasta ári og munu í framhaldinu undirbúa tillögur um næstu skref. 

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 19:10.