A kvenna - 1-1 jafntefli gegn Suður Kóreu
Ísland gerði 1-1 jafntefli gegn Suður Kóreu í seinni vináttuleik þjóðanna, en leikið var í Suður Kóreu. Það var Rakel Hönnudóttir sem skoraði mark Íslands í fyrri hálfleik.
Leikurinn var jafn til að byrja með og héldu bæði lið boltanum ágætlega. Ísland var nálægt því að komast yfir þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom boltanum framhjá markverði Suður Kóreu utarlega í teignum en missti boltann frá sér. Fimm mínútum síðar átti Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skot framhjá.
Á 22. mínútu átti Sigríður Lára Garðarsdóttir frábært skot sem endaði í þverslánni. Boltinn datt út í teiginn þar sem Rakel Hönnudóttir var fyrst að bregðast við og skallaði boltann í markið.
Það tók Suður Kóreu hins vegar aðeins sex mínútur að jafna leikinn þegar þær komust í gegn og skoruðu með góðu skoti úr teignum. Staðan orðin 1-1. Sonný Lára Þráinsdóttir varði frábærlega þegar um sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Staðan því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.
Stelpurnar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og eftir aðeins þrjár mínútur átti Berglind Björg skot í slánna er hún komst í gegn. Suður Kórea náði fljótt stjórn á leiknum aftur, voru meira með boltanum og settu pressu á íslensku vörnina. Þeim tókst þó ekki að skapa sér opin færi og vörn Íslands hélt mjög vel.
Á 60. mínútu gerði Ísland fyrstu skiptingu sína. Þá komu Ásta Eir Árnadóttir og Selma Sól Magnúsdóttir inn á, en útaf fóru Ingibjörg Sigurðardóttir og Sandra María Jessen. Tíu mínútum síðar voru það Andrea Mist Pálsdóttir og Lára Kristín Pedersen sem komu inn á. Útaf fóru þær Rakel Hönnudóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir.
Suður Kórea hélt áfram að vera meira með boltann en tókst ekki að skapa færi á meðan íslenska liðið var alltaf hættulegt í skyndisóknum. Þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum kom Hallbera Guðný Gísladóttir inn á fyrir Fanndísi Friðriksdóttur.
Síðasta færi leiksins leit dagsins ljós þegar rúmlega tvær mínútur voru til leiksloka. Sonný Lára varði þá vel skot úr teignum. 1-1 jafntefli því staðreynd. Flott frammistaða hjá stelpunum í leikjunum tveimur, en þær unnu fyrri leikinn 3-2.
Fanndís Friðriksdóttir lék landsleik númer 100 í dag! Til hamingju Fanndís!