Umfangsmikið verkefni tengt FIFA-tölvuleiknum
Nokkuð hefur verið fjallað um rafíþróttir í fjölmiðlum að undanförnu og ljóst að mikill áhugi og vöxtur er í þessum geira. KSÍ hefur um nokkurt skeið skoðað rafíþróttir hvað knattspyrnu varðar í samstarfi og samráði við EA Sports, sem m.a. gefur út FIFA-tölvuleikinn, en eins og kunnugt er geta knattspyrnuþyrstir FIFA-spilarar valið íslenska landsliðið í leiknum eftir að samningar náðust milli KSÍ og EA Sports haustið 2017.
Nú þegar hafa nokkur íþróttafélög tekið fyrstu skrefin hvað varðar rafíþróttir innan sinna raða og fyrr í mánuðinum samþykkti borgarstjórn Reykjavíkurborgar að vísa tillögu um rafíþróttadeildir innan íþróttafélaga í Reykjavík til meðferðar hjá menningar-, íþrótta- og tómstundaráði. Markmiðið er að „styðja við og styrkja þau félög sem hafa hug á að koma á fót rafíþróttadeildum“.
Á Norðurlöndunum hefur þróunin verið hröð og þar hafa knattspyrnusambönd og samtök félagsliða sett á fót sérstakar deildir þar sem keppt er undir merkjum knattspyrnufélaganna sjálfra, auk þess að keppa „landsleiki“ sín á milli og við aðrar þjóðir, jafnt á Norðurlöndunum sem utan þeirra. Deildarkeppnirnar þarf að setja á fót í virku og nánu samstarfi við EA Sports vegna réttindamála, en „landsleikina“ er hægt að skipuleggja með einfaldari hætti.
KSÍ vinnur nú að undirbúningi umfangsmikils verkefnis þar sem hugmyndin er að hvetja og styðja við aðildarfélög KSÍ til að skipuleggja innanfélagsmót í FIFA-tölvuleiknum. Sigurvegararnir hjá hverju félagi myndu síðan keppa fyrir hönd síns félags í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitil, og Íslandsmeistararnir myndu loks skipa landsliðið í fyrsta landsleik Íslands í þessum vinsæla tölvuleik.