• fös. 29. mar. 2019
  • Mótamál
  • Mjólkurbikarinn

MS og Sýn undirrita samning um Mjólkurbikarinn 2019

Samstarfssamningur um Mjólkurbikarinn 2019 var undirritaður í höfuðstöðvum KSÍ á fimmtudag að viðstöddum fulltrúum Mjólkursamsölunnar, Sýnar, KSÍ og fyrirliða bikarmeistara síðasta árs. Það voru þeir Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar og Ari Edwald forstjóri Mjólkursamsölunnar sem undirrituðu samninginn. Guðni Bergsson formaður KSÍ, Sonný Lára Þráinsdóttir fyrirliði Breiðabliks og Baldur Sigurðsson fyrirliði Stjörnunnar sáu til þess að allt færi vel fram.  Að undirskrift lokinni var boðið upp á súkkulaðiköku og (að sjálfsögðu) ískalda mjólk.

Mjólkurbikarinn sneri aftur fyrir keppnistímabilið 2018 en Bikarkeppni KSÍ bar einmitt nafn Mjólkurbikarsins árin 1986 til 1996.  Mjólkurbikar karla hefst 10. apríl næstkomandi með viðureign Kára og Hamars í Akraneshöllinni, en alls verða leiknir tæplega 50 leikir í fyrstu tveimur umferðum Mjólkurbikars karla áður en dregið verður í 32-liða úrslit þann 23. apríl. Mjólkurbikar kvenna hefst 3. maí, sama dag og dregið verður í 16-liða úrslitin karlamegin, og að loknum fyrstu tveimur umferðum Mjólkurbikars kvenna verður dregið í 16-liða úrslit þann 17. maí.  Úrslitaleikirnir fara að venju fram á Laugardalsvelli – úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna þann 17. ágúst og úrslitaleikur Mjólkurbikars karla þann 14. september.

Mynd:  Vilhelm Gunnarsson, Sýn