Mörg verkefni framundan hjá landsliðum
Öll landslið Íslands eru næsta mánuðinn í verkefnum nema U19 ára lið karla og U16 ára lið kvenna, en þær leika næst í maí. Um er að ræða 23 leiki, ásamt æfingum.
A landslið kvenna er nýkomið frá Algarve Cup þar sem það mætti Kanada, Portúgal og Skotlandi. Í byrjun apríl fer liðið til Suður Kóreu og mætir þar heimamönnum í tveimur leikjum.
A landslið karla leikur fyrstu tvo leiki sína í undankeppni EM 2020 í lok mars. Þeir mæta Andorra 22. mars og Frakklandi 25. mars, en báðir leikirnir fara fram ytra.
U21 ára lið karla leikur tvo vináttuleiki í lok mars. Fyrst mætir liðið Tékklandi í Pinatar á Spáni áður en þeir ferðast til Katar og mæta þar heimamönnum.
U19 ára lið kvenna lék þrjá vináttuleiki á La Manga í byrjun mars, en þar mættu þær Danmörku, Ítalíu og Svíþjóð. Þessir leikir voru liður í undirbúningi liðsins fyrir milliriðla undankeppni EM 2019 sem fara fram í byrjun apríl. Þar mæta stelpurnar Búlgaríu, Rússlandi og Hollandi, en eitt lið fer áfram í úrslitakeppnina.
U17 ára lið karla leikur í milliriðlum undankeppni EM 2019, en þar eru strákarnir í riðli með Slóveníu, Þýskalandi og Hvíta Rússlandi, en leikið er í Þýskalandi. Tvö efstu lið riðilsins fara áfram í lokakeppnina.
U17 ára lið kvenna leikur í milliriðli undankeppni EM 2019 og eru þar í riðli með Slóveníu, Danmörku og Ítalíu, en riðillinn fer fram á Ítalíu.
U16 ára lið karla leikur á UEFA Development móti þar sem þeir mæta Króatíu, Bolivíu og Austurríki, en mótið fer fram í Króatíu.
U15 ára lið karla og kvenna eru með æfingar helgina 22.-24. mars.