Samstarf KSÍ og SÍ um útgáfu fjölmiðlaskírteina
KSÍ og Samtök íþróttafréttamanna (SÍ) hafa átt í samstarfi um útgáfu fjölmiðlaskírteina KSÍ síðan 2014 og er samstarfinu áfram haldið fyrir keppnistímabilið 2019. KSÍ mun kalla eftir umsóknum fulltrúa fjölmiðla um skírteini og SÍ veitir þeim faglega umsögn. Fjölmiðlaskírteini, útgefið af KSÍ, veitir aðgang að leikjum á Íslandsmóti og í bikarkeppni KSÍ.
Eingöngu handhafar fjölmiðlaskírteina fá aðgang að aðstöðu fjölmiðlamanna á leikstað og mun SÍ hafa eftirlit með því að skírteinin séu notuð á viðeigandi hátt á meðan leiktíðinni stendur. Aðeins þeir sem sannarlega fjalla um knattspyrnu í íslenskum fjölmiðlum (fréttamenn, blaðamenn, ljósmyndarar og aðrir) eiga þess kost að fá fjölmiðlaskírteini. Ekki er nauðsynlegt að vera fullgildur meðlimur í SÍ til að sækja um fjölmiðlaskírteini, enda koma mun fleiri að umfjöllun fjölmiðla um leiki en þeir sem eru íþróttafréttamenn í fullu starfi.
Umsóknir um fjölmiðlaskírteini fyrir 2019 skulu berast í gegnum Accredito-kerfi KSÍ. Skráðir notendur Accredito fá senda tilkynningu þegar opnað verður fyrir umsóknir.
Samtök íþróttafréttamanna voru stofnuð 14. febrúar 1956, fyrst og fremst til að vinna að betri aðstöðu við störf þeirra á íþróttavettvangi, auk þess að tryggja félagsmönnum og aðstoðarmönnum þeirra greiðan aðgang að íþróttamótum og kappleikjum. Fastir félagar með fullum réttindum eru þeir sem hafa það að fullri atvinnu að fjalla um íþróttir í fjölmiðlum.