67 fulltrúar frá 23 félögum á vinnufundum um markaðsstarf
Alls sóttu 67 fulltrúar frá 23 aðildarfélögum vinnufundi í höfuðstöðvum KSÍ í síðustu viku, þar sem fjallað var um markaðs- og kynningarmál, framkvæmd og umgjörð leikja í víðu samhengi. Viðburðir sem þessir eru haldnir ár hvert.
Miðvikudaginn 6. mars var vinnufundur um samfélagsmiðla og notkun þeirra í kynningarstarfi. Kynnt var skipulag KSÍ í kringum miðla sambandsins, Valsmenn kynntu samfélagsmiðla sína og Blikar kynntu tengsl myndbandsefnis við miðla Breiðabliks. Smellið hér til að horfa á upptöku frá fundinum.
Fimmtudaginn 7. mars og föstudaginn 8. mars voru svo vinnufundir um markaðsmál og umgjörð leikja í Inkasso-deildum annars vegar (7. mars) og Pepsi Max deildum hins vegar (8. mars). Ölgerðin kynnti sínar áætlanir og hugmyndir í tengslum við Pepsi Max deildir karla og kvenna, Stöð 2 sport fór yfir mál tengd beinum útsendingum, markaþáttum sumarsins og annarri umfjöllun og Zenter kynnti helstu niðurstöður markaðsrannsóknar sem unnin var haustið 2018. Loks kynntu Fjölnir og FH umgjörð leikja og annarra viðburða og verkefna hjá sínum félögum.
Almenn ánægja var með viðburðina og var þátttaka allra viðstaddra virk og góð, reynslu og þekkingu deilt og góðar umræður um ýmsa þætti.