A kvenna - 9. sætið staðreynd á Algarve Cup 2019
Ísland vann frábæran 4-1 sigur gegn Portúgal og tryggði sér 9. sætið á Algarve Cup 2019. Agla María Albertsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir skoruðu mörk Íslands.
Stelpurnar byrjuðu leikinn frábærlega og Agla María skoraði fyrsta mark leiksins strax á 2. mínútu með frábæru skoti fyrir utan teig. Það var ljóst frá byrjun að þær ætluðu að svara fyrir úrslitin gegn Skotlandi á mánudaginn og voru þær betri aðilinn í upphafi.
Á 11. mínútu komst Elín Metta Jensen í gegn vinstra megin í teignum en skot hennar fór í hliðarnetið. Leikurinn jafnaðist nokkuð eftir þetta, en hvorugt liðanna tókst að skapa sér opin færi.
Síðustu tíu mínútur hálfleiksins tók íslenska liðið aftur völdin á vellinum og fékk Andrea Rán Hauksdóttir gott færi á 35. mínútu. Sif Atladóttir tók langt innkast, boltinn datt fyrir Andreu í teignum en skot hennar fór framhjá.
Aðeins þremur mínútum síðar kom annað mark leiksins. Berglind Björg Þorvaldsdóttir sendi boltann í gegn á Selmu Sól sem skoraðio með góðu skoti úr teignum. Góð skyndisókn hjá stelpunum.
Stuttu síðar átti Sigríður Lára skalla rétt framhjá eftir enn eitt langa innkast Sifjar Atladóttur. Staðan því 2-0 fyrir Ísland þegar flautað var til háfleiks.
Ísland byrjaði seinni hálfleik jafn vel og þann fyrri og eftir aðeins þriggja mínútna leik átti Elín Metta frábæra sendingu yfir Portúgals. Berglind Björg komst í gegn en skot hennar var varið.
Leikurinn jafnaðist töluvert eftir það og bæði liðin héldu boltanum ágætlega, en þó án þess að skapa sér teljandi færi.
Á 64. mínútu kom Margrét Lára Viðarsdóttir inn á, en útaf fór Berglind Björg. Átta mínútum síðar komu þær Dagný Brynjarsdóttir og Guðrún Arnardóttir inn á, en útaf fóru Ingibjörg Sigurðardóttir og Elín Metta Jensen.
Ísland var nálægt því að bæta við forystuna á 79. mínútu. Selma Sól fékk boltann hægra megin í teignum, en tókst ekki að koma boltanum á markið. Fljótlega eftir það komu þær Svava Rós Guðmundsdóttir og Rakel Hönnudóttir inn á, en útaf fóru þær Agla María og Selma Sól.
Leikurinn endaði með þremur mörkum með stuttu millibili. Fyrst var það Margrét Lára Viðarsdóttir sem skoraði eftir stoðsendingu Dagnýjar Brynjarsdóttur áður en Portúgal minnkaði muninn í 3-1. Það var svo Svava Rós Guðmundsdóttir sem skoraði fjórða mark Íslands.
Þar við sat og 9. sætið á Algarve Cup 2019 staðreynd.