• þri. 26. feb. 2019
  • Skrifstofa KSÍ

Vefur KSÍ hlaut Íslensku vefverðlaunin

Íslensku vefverðlaunin voru afhent á Hilton Hótel Nordica síðastliðinn föstudag.  Nýr vefur KSÍ, sem var settur í loftið á síðasta ári, hlaut verðlaun fyrir "bestu efnis- og fréttaveitu". Advania, sem er einn af bakhjörlum KSÍ, sá um greiningu, hönnun og forritun á vefnum.  

Það voru þau Gylfi Steinn Gunnarsson og Guðfinna Ýr Róbertsdóttir frá Advania sem tóku við verðlaununum fyrir hönd Advania (mynd).

Það eru Samtök vefiðnaðarins (SVEF) sem standa að Íslensku vefverðlaununum en þau eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins. Hátíðin er haldin með það að markmiði að efla iðnaðinn, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Veitt eru verðlaun í 11 flokkum og einnig veitir dómnefnd sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi hönnun og viðmót og vef ársins 2018.

Á vef KSÍ, sem er fyrst og fremst þjónustu- og upplýsingavefur, er að finna gríðarlegt magn af upplýsingum um allt hvaðeina sem viðkemur íslenskri knattspyrnu og knattspyrnuíþróttinni almennt.  Kjarnahluti vefsins, og sá hluti sem lang mest er sóttur af notendum, er mótahlutinn og mótatengdar síður (gagnagrunnur), en hönnun og virkni þess hluta byggir á eldri vef KSÍ.