HM kvennalandsliða á Norðurlöndunum 2027?
Undanfarið ár hefur starfshópur á vegum knattspyrnusambandanna á Norðurlöndunum (Danmörk, Færeyjar, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð) skoðað möguleikann á því að samböndin standi sameiginlega að umsóknum um að halda alþjóðleg stórmót.
Eftir að hafa kynnt sér ýmsa möguleika, mót á vegum UEFA og FIFA, hafa knattspyrnusamböndin sex ákveðið að halda þessu verkefni áfram og hefja undirbúning að forkönnun á mögulegri umsókn um að halda úrslitakeppni HM kvennalandsliða 2027 á Norðurlöndunum. Alþjóða knattspyrnusambandið (FIFA) hefur lýst yfir því að sambandið muni líta sameiginlegar umsóknir landa um að halda stórmót með jákvæðum augum, sem opnar dyrnar fyrir sameiginlega umsókn Norðurlandanna.
Knattspyrnusamböndin sex hafa nú þegar ályktað að möguleg umsókn skuli byggð á sameiginlegum norrænum gildum. Fyrrnefndri forkönnun er ætlað að leiða í ljós hversu marga leikvanga á Norðurlöndunum þarf til að uppfylla kröfur FIFA vegna úrslitakeppni HM kvennalandsliða. Auk leikvanganna sjálfra þarf að gera ráð fyrir mannvirkjum og aðstöðu undir viðburði tengda úrslitakeppninni sjálfri, aðra en leikina sjálfa, sem myndi þýða að hægt verður að tengja umsókn um HM 2027 öllum löndunum sex með virkri þátttöku knattspyrnusambandanna allra. Sameiginlegt verkefni af þessari stærðargráðu myndi enn frekar efla samstarf og tengsl milli Norðurlandanna og styðja við frekari framþróun og framgangi knattspyrnuíþróttarinnar í öllum sex löndunum.
Vinnuheiti forkönnunarinnar er “Vision 2027”. Í fyrsta þrepi verkefnisins verður kannað hvaða borgir og hvaða leikvangar á Norðurlöndunum hafa áhuga á að taka þátt í forkönnuninni.