Pepsi-deildin verður Pepsi Max deildin
Sýn hf., fyrir hönd Stöðvar 2 sports, og Ölgerðin Egill Skallagrímsson hafa samið um nafnarétt efstu deilda Íslandsmóts karla og kvenna til næstu þriggja ára. Vörumerki Pepsi verður þannig tengt efstu deildum beggja kynja 11. árið í röð á komandi keppnistímabili. Pepsi Max leysir Pepsi af hólmi og munu deildirnar bera nafnið Pepsi Max deildir karla og kvenna næstu þrjú árin.
Ölgerðin og PepsiCo. vinna saman að þessu samstarfi en þess má geta að það er ekki bara á Íslandi sem PepsiCo. hefur beina aðkomu að knattspyrnu því PepsiCo. er einn stærsti styrktaraðili UEFA og Meistaradeildar Evrópu, eins stærsta knattspyrnumóts sem haldið er í heiminum.
Guðni Bergsson formaður KSÍ lýsti yfir ánægju með samninginn. „Það eru spennandi tímar framundan í íslenskri knattspyrnu og við hlökkum mikið til áframhaldandi samspils KSÍ, félaganna í deildinni, Ölgerðarinnar og Sýnar. Saman myndum við sterka liðsheild sem mun gera góða hluti.“
Fréttatilkynning Sýnar og Ölgerðarinnar
Á mynd (frá vinstri): Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar, Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar og Guðni Bergsson formaður KSÍ.