Námskeið í Ólympíu fyrir unga þátttakendur
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands auglýsir eftir tveimur þátttakendum, kven- og karlkyns, á námskeið ungs íþróttafólks (20 til 35 ára) á vegum Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu í Grikklandi dagana 1.- 15. júní n.k. Að þessu sinni er aðal umfjöllunarefnið „Olympic Diplomacy and Peace?“
Þetta er einstakt tækifæri til að kynna sér starfsemi Alþjóða Ólympíuakademíunnar ásamt því að taka þátt í umræðum um gildi og hugsjónir Ólympíuhreyfingarinnar. Flugferðir, gisting og uppihald eru þátttakendum að kostnaðarlausu.
Leitað er að einstaklingum sem náð hafa mjög góðum árangri í íþróttagrein (-greinum) og/eða sinnt kennslu/þjálfun/félagsstörfum innan íþróttahreyfingarinnar, ásamt því að sýna málefnum Ólympíuhreyfingarinnar sérstakan áhuga. Æskilegt er að umsækjandi sjái fram á áframhaldandi starf innan íþróttahreyfingarinnar á næstu árum. Umsækjandi þarf að hafa gott vald á ensku og/eða frönsku og vera fyrirmynd annars æskufólks í hvívetna.
Þátttakendur taka þátt í alþjóðlegu námskeiðahaldi í tæpar tvær vikur og búa á heimavist Alþjóða Ólympíuakademíunnar í Ólympíu. Unnið er í lotum fyrir hádegi og eftir hádegi sem gjarnan lýkur á umræðum. Að því loknu er ýmislegt gert til að hrista hópinn saman; keppt í allskonar íþróttum, farið á ströndina og í skoðunarferðir.
Reynsla þeirra sem hafa farið er að þau hafa öðlast dýpri skilning á sögu Ólympíuleikanna, fyrir hvað Ólympíuhugsjónin stendur og hvernig megi miðla þeirri þekkingu áfram. Það dýrmætasta hafa þó verið vináttuböndin sem þátttakendur mynda að lokinni tveggja vikna dvöl.
Umsóknum skal skilað, á þar til gerðum eyðublöðum til skrifstofu ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, ekki seinna en miðvikudaginn 27. febrúar n.k.
Hérna er tilvitnun frá Dominiqu Belanyi landsliðskona í fimleikum sem fór í fyrra.
,,Þetta voru ólýsanlegar tvær vikur, frábær lífsreynsla og minningar sem munu seint gleymast. Fyrirlestarnir og námið var áhugavert og hvetjandi, íþróttaviðburðirnir ótrúlega skemmtilegir en það sem stendur mest upp úr er félagslegi þátturinn og fólkið sem maður kynntist."
Umsókn skal skilað á ensku á skrifstofu ÍSÍ og skulu fylgja henni tvær passamyndir.
Umsóknareyðublað
Frekari upplýsingar veitir Þórarinn Alvar Þórarinsson verkefnastjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, sími 514 4000, alvar@isi.is.