• lau. 09. feb. 2019
  • Ársþing
  • Grasrótarverðlaun

FC Sækó og Þróttur R. fá Grasrótarverðlaun KSÍ

FC Sækó og Þróttur R. hlutu Grasrótarverðlaun KSÍ á 73. ársþingi KSÍ.

FC Sækó 

Knattspyrnufélagið FC Sækó hefur frá árinu 2011 boðið upp á knattspyrnu fyrir fólk með geðraskanir, gefið þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu og að draga úr fordómum. FC Sækó er skipað notendum geð- og velferðarkerfis Reykjavíkurborgar og Landspítalans, starfsmönnum þess og öðrum sem áhuga hafa á að styðja við verkefnið. Á síðasta ári fékk FC Sækó gullverðlaun UEFA í flokki Grasrótarverkefni ársins og varð þar með fyrsta verkefnið á Íslandi til að hljóta þann heiður.

Knattspyrnufélagið Þróttur 

Undanfarin misseri hefur Þróttur Reykjavík boðið upp á göngufótbolta, þar sem fólk á öllum aldri kemur saman til að leika fótbolta á sínum hraða. Þetta form af knattspyrnu hefur verið að ryðja sér til rúms í Evrópu að undanförnu. Þróttur hefur verið í framvarðasveit í þessum málaflokki hér á landi en með því að bjóða upp á fótbolta fyrir þennan markhóp hefur Þróttur víkkað starf sitt, fengið fleiri iðkendur og virkjað félagsmenn enn frekar. Þróttur á svo sannarlega hrós skilið fyrir þetta skemmtilega framtak og er það von KSÍ að fleiri félög feti í fótspor Þróttara í náinni framtíð.

KSÍ telur að fyrrnefnd félög séu einstaklega vel að Grasrótarverðlaunum KSÍ komin og óskar þeim innilega til hamingju með sínar viðurkenningar.