• þri. 22. jan. 2019
  • Mótamál

Þátttaka leikmanna í sýningarleikjum

Samningsbundnir leikmenn þurfa að hafa heimild frá sínu félagi til að taka þátt í sýningarleikjum

Að gefnu tilefni vill Knattspyrnusamband Íslands koma því á framfæri að sýningarleikir sem fyrirhugaðir eru á föstudag og laugardag eru hvorki skipulagðir af sambandinu né aðildarfélögum þess. Af þeim ástæðum vill knattspyrnusambandið koma þeim skilaboðum áleiðis til leikmanna að aðildarfélögum KSÍ ber ekki að greiða kostnað sem hlýst vegna meiðsla leikmanna sem kunna að eiga sér stað í slíkum sýningarleikjum. Á það bæði við um leikmenn sem eru ósamningsbundnir og þá sem eru samningsbundir.

Samkvæmt reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga skulu tryggingar, sem aðildarfélög ganga frá fyrir samningsbundna leikmenn sína, ná yfir slys og meiðsli við æfingar, keppni, ferðir og starf í tengslum við félagið og KSÍ. Reglugerðin kveður því ekki á um að samningsbundir leikmenn séu tryggðir við æfingar, keppni, ferðir og starf á öðrum vettvangi.

Að auki er rétt að benda á að endurgreiðslur úr íþróttaslysasjóði ÍSÍ ná heldur ekki til kostnaðar sem kann að hljótast vegna meiðsla í slíkum sýningarleikjum. Íþróttaslysasjóður ÍSÍ tekur einungis til slysa við keppni á vegum íþróttafélaga svo og skipulagðar íþróttaæfingar sem haldnar eru á vegum þessara aðila, undir stjórn þjálfara með það að markmiði að taka þátt í keppni.

Loks er rétt að benda á að samningsbundnir leikmenn þurfa að hafa heimild frá því félagi sem þeir eru samningsbundir til að taka þátt framangreindum viðburði.