A kvenna - Frábær 2-1 sigur gegn Skotlandi á La Manga
Ísland vann flottan 2-1 sigur gegn Skotlandi, en leikið var á La Manga á Spáni. Elín Metta Jensen skoraði bæði mörk liðsins í byrjun síðari hálfleiks.
Aðstæður á La Manga voru frábærar. Sól, 20 stiga hiti og völlurinn flottur. Jafnvægi var yfir leiknum fyrstu 15 mínúturnar, þó Ísland hafi verið nokkuð beinskeyttara.
Fyrsta markskotið kom strax eftir fimm mínútur þegar skot Fanndísar Friðriksdóttur fór af varnarmanni og aftur fyrir. Úr horninu skapaðist fínt færi, boltinn fór í gegnum teiginn á Glódísi sem náði ekki skoti á markið og Skotar hreinsuðu úr markteig. Rúmum fimm mínútum síðar átti Sara ágætis skot, en framhjá markinu fór það.
Næsta færi stelpnanna leit dagsins ljós á 26. mínútu. Sif Atladóttir átti langt innkast, Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk boltann en skot hennar utarlegt úr teignum fór framhjá. Tveimur mínútum síðar áttu Skotar sitt fyrsta færi, en Sara Björk komst fyrir skotið og boltinn fór framhjá.
Staðan markalaus í hálfleik en síðustu 25 mínútur hálfleiksins voru Skotar ívíð meira með boltann án þess að skapa sér mikið.
Stelpurnar byrjuðu hins vegar seinni hálfleikinn af krafti og leit fyrsta mark dagsins ljós á 51. mínútu. Hallbera Guðný Gísladóttir átti sendingu sem Berglind Björg gerði vel með að halda lifandi. Boltinn barst til Öglu Maríu Albertsdóttur sem koma boltanum fyrir markið. Þar var Elín Metta óvölduð við vítapunkt og renndi boltanum í hornið.
Elín Metta bætti svo við öðru marki aðeins þremur mínútum síðar. Berglind Björg fékk góða sendingu upp í hornið, hún átti frábæra sendingu sem Elín Metta kláraði vel.
Þegar um 30 mínútur voru eftir af leiknum komu þær Selma Sól Magnúsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir inn á, en útaf fóru Fanndís Friðriksdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Tíu mínútum síðar komu þær Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir inn á og útaf fóru Sonný Lára Þráinsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir.
Elísa Viðarsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir komu inn á þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum, en útaf fóru Ingibjörg Sigurðardóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Skotar áttu fínt færi eftir skiptinguna, en ekki tókst þeim að skora. En í blálokin tókst þeim það hins vegar með frábæru skoti frá Lana Clelland og 2-1 sigur Íslands því staðreynd og frábær byrjun hjá liðinu undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar.
Þess má geta að um 50 Íslendingar voru á leiknum á vegum Íslendingafélagsins í Alicante. Frábær stuðningur!