Lúðvík Gunnarsson ráðinn yfirmaður Hæfileikamótunar N1 og KSÍ
Lúðvík Gunnarsson hefur verið ráðinn nýr yfirmaður Hæfileikamótunar N1 og KSÍ, en hann tekur við af Þorláki Árnasyni.
Lúðvík hefur starfað lengi við knattspyrnu, en hann hefur verið þjálfari Kára frá árinu 2016. Á þeim tíma hefur hann komið liðinu upp í 2. deild, en þar endaði það í 5. sæti á síðasta tímabili. Hann þjálfaði einnig meistaraflokk kvenna hjá ÍA árin 2008 og 2009.
Ásamt því að þjálfa Kára á síðasta ári hefur hann verið yfirþjálfari yngri flokka ÍA. Einnig hefur hann þjálfað yngri flokka á Akranesi síðastliðin ár.
Við bjóðum Lúðvík velkominn til starfa!