Gylfi Þór og Sara Björk knattspyrnufólk ársins 2018
Leikmannaval KSÍ hefur valið Gylfa Þór Sigurðsson og Söru Björk Gunnarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2018. Þetta er í 15. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.
Knattspyrnumaður ársins
1. sæti
Gylfi Þór Sigurðsson átti að venju mjög gott tímabil, en hann hefur verið ein af driffjöðrum sóknarleiks Everton. Liðið endaði í 8. sæti á síðastliðnu tímabili þar sem Gylfi lék 27 leiki, skoraði fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar. Í enska bikarnum lék hann einn leik og skoraði eitt mark, ásamt því að leika fjóra leiki í Evrópudeildinni og skora eiga þar tvær stoðsendingar. Fyrir Everton hefur hann leikið 17 leiki á yfirstandandi leiktímabili, skorað sjö mörk og átt tvær stoðsendingar.
Gylfi var lykilmaður í landsliði Íslands þegar það tók þátt í lokakeppni HM í fyrsta skipti í sögunni, en þar lék hann alla leiki liðsins og skoraði mark Íslands í leiknum gegn Króatíu. Í Þjóðadeild UEFA lék hann þrjá af fjórum leikjum liðsins.
2. sæti
Alfreð Finnbogason hefur leikið vel á árinu, hvort sem það er hjá Augsburg eða með landsliðinu. Liðið endaði í 12. sæti á síðastliðnu leiktímabili og Alfreð átti gott tímabil, þrátt fyrir meiðsli, og skoraði 12 mörk í 22 leikjum, ásamt því að eiga þrjár stoðsendingar. Á yfirstandandi leiktímabili hefur hann leikið átta leiki, skorað sjö mörk og átt eina stoðsendingu.
Alfreð skoraði mark Íslands gegn Argentínu og með því fyrsta mark Íslands í lokakeppni HM ásamt því að skora mark Íslands gegn Belgíu á Laugardalsvelli í Þjóðadeild UEFA.
3. sæti
Jóhann Berg Guðmundsson hefur verið einn allra besti leikmaður Burnley í ensku úrvalsdeildinni og er þar algjör lykilmaður. Liðið lék frábærlega á síðasta leikatímabili, endaði í 7. sæti og nældi sér með því í sæti í Evrópudeildinni. Jóhann átti frábært tímabil, lék 38 leiki, skoraði tvö mörk og sendi átta stoðsendingar. Á yfirstandandi leiktímabili hefur hann leikið 20 leiki, skorað tvö mörk og átt fimm stoðsendingar.
Jóhann Berg hefur einnig verið lykilmaður hjá íslenska landsliðinu og lék tvo af þremur leikjum þess á HM.
Knattspyrnukona ársins
1. sæti
Sara Björk Gunnarsdóttir er einn af mikilvægustu leikmönnum Wolfsburg og vann þar bæði deild og bikar á síðastliðnu tímabili, annað árið í röð. Á yfirstandandi tímabili hefur liðið ekki enn tapað leik, unnið 11 og gert eitt jafntefli og situr í efsta sæti með fimm stiga forskot. Liðið komst alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar en tapaði þar fyrir Lyon.
Sara Björk hefur leikið átta leiki á yfirstandandi leiktímabili og skorað í þeim eitt mark. Hún er fyrirliði íslenska landsliðsins og á árinu lék hún átta leiki með liðinu.
2. sæti
Sif Atladóttir var frábær á árinu með Kristianstad, en liðið endaði í fjórða sæti í sænsku úrvalsdeildinni. Sif var þar klettur í vörninni, lék 21 af 22 leikjum tímabilsins. Í lok þess var hún valin ein af þremur mikilvægustu leikmönnum deildarinnar.
Sif lék sjö leiki með íslenska landsliðinu á árinu og var mikilvægur hlekkur í varnarleik liðsins.
3. sæti
Glódís Perla Viggósdóttir átti gott tímabili með Rosengard, en liðið endaði í þriðja sæti í sænsku úrvalsdeildinni. Þar lék Glódís Perla alla 22 leiki liðsins og skoraði fjögur mörk.
Hún var frábær með íslenska landsliðinu á árinu, lék 15 leiki og skoraði fjögur mörk.