U21 karla - 0-2 tap gegn Mexíkó
U21 ára lið karla tapaði fyrir Mexíkó 0-2 í fyrsta leik liðsins á móti í Kína, en leikið er í Chongqing. Þrátt fyrir tapið var Ísland betri aðilinn stóran part leiksins og áttu svo sannarlega meira skilið út úr leiknum.
Mexíkó byrjaði leikinn betur, héldu boltanum vel og sóttu hart að marki Íslands á meðan strákarnir átti erfitt að spila boltanum lengi á milli sín. Á 8. mínútu leiksins tókst Mexíkó að nýta pressuna þegar þeir skoruðu gott mark og staðan því orðin 0-1.
Eftir um svona 15 mínútna leik komst Ísland betur inn í leikinn og var betri aðilinn restina af fyrri hálfleik. Á 23. mínútu átti Sveinn Aron Guðjohnsen frábæran skalla sem bjargað var af línu. Ísland hélt áfram að halda boltanum vel á meðan Mexíkó átti í erfiðleikum með það að skapa sér færi. Rétt undir lok fyrri hálfleiks var Axel Óskar Andrésson nálægt því að jafna, en eftir aukaspyrnu voru tvö skot hans stöðvuð af varnarmanni. Staðan því 0-1 í hálfleik.
Í hlénu gerði Ísland fjórar skiptingar. Inn á völlinn komu þeir Ægir Jarl Jónasson, Stefán Teitur Þórðarson, Daníel Hafsteinsson og Guðmundur Andri Tryggvason fyrir Willum Þór Willumsson, Svein Aron Guðjohnsen, Alex Þór Hauksson og Mikael Neville Anderson.
Ísland hélt áfram að vera betri aðilinn í leiknum stóran part af síðari hálfleik og voru oft á tíðum nálægt því að skora. Á 61. mínútu komu þeir Hörður Ingi Gunnarsson, Aron Már Brynjarsson og Jónatan Ingi Jónsson inn á fyrir Felix Örn Friðriksson, Alfons Sampsted og Kristófer Inga Kristinsson. Þremur mínútum síðar fékk Daníel boltann rétt fyrir utan teig en skot hans fór yfir markið.
Leikurinn róaðist aðeins í kjölfarið og var nokkuð jafnræði með liðunum. Það var svo á 81. mínútu sem Mexíkó jók forystu sína og staðan orðin 0-2. Þar við sat og tap staðreynd hjá strákunum í þessum fyrsta leik liðsins í Kína.
Liðið mætir Kína næst á laugardaginn og hefst sá leikur klukkan 11:30 að íslenskum tíma, 19:30 hér í Kína.