Styrkjum stoðirnar
Orðspor íslenskrar knattspyrnu hefur vaxið mjög á síðustu árum. Frásagnir af afrekum landsliðanna okkar hafa farið víða og er svo komið að „fótbolti“ eða „húh!“ er líklega það fyrsta sem flestir hugsa þegar þeir heyra nafnið á landinu okkar. Þessa stöðu og þennan árangur þurfum við að nýta til að styrkja stoðir íslenskrar knattspyrnu til langs tíma.
Á þeim rúmum 20 lærdómsríku mánuðum sem undirritaður hefur verið formaður KSÍ, hefur margt verið gert til þess að reyna að styrkja þessar stoðir. Sumu hefur þegar verið hrint í framkvæmd og við sjáum fyrir endann á ýmsum öðrum verkefnum. Við þurfum samt að átta okkur á því að þessari vinnu lýkur aldrei – við þurfum stöðugt að vinna í því að efla og styrkja starfsemina. KSÍ er samband aðildarfélaganna og okkar starf gengur fyrst og fremst út á að styðja við allt knattspyrnustarf og öll félög – grasrótina, uppeldisstarf, afreksstarf, stjórnun og skipulag – með öllum leiðum sem okkur eru færar.
Tengsl og samráð við aðildarfélögin eru kjarninn í því sem við gerum dags daglega. Þar eru línurnar lagðar. Á þessu hausti eru t.a.m. fjölmargir fundir haldnir – árlegur fundur formanna og framkvæmdastjóra, samráðsfundir með efstu deildum, heimsóknir stjórnarmanna KSÍ til félaga og heimsóknir starfsmanna markaðsdeildar KSÍ til félaga í Pepsi og Inkasso-deildum. Allt sem KSÍ gerir miðar jú að því að efla íslenska knattspyrnu og styrkja stoðir hennar hérlendis sem erlendis.
Veigamikill þáttur í þessu er sú umfangsmikla stefnumótunarvinna KSÍ sem við erum að ljúka og munum kynna innan fárra vikna. Skýrari sýn og markmið, breytt og skilvirkara skipulag mun gera skrifstofuna öflugri en áður – enn sterkari í því lykilhlutverki sínu að styðja við starfsemi félaganna og veita nauðsynlega þjónustu. Meðal breytinga má nefna nýtt knattspyrnusvið, sem mun gera okkur kleift að bæta faglega þáttinn í uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu, og nýtt markaðssvið, sem mun efla okkar markaðsstarf og hjálpa okkur að finna og byggja upp nýja tekjustofna auk þess að styðja enn betur við markaðsstarf félaga og deilda en áður hefur verið gert.
Árangur A landsliðs karla á síðustu árum hefur opnað nýjar víddir fyrir okkur, ekki bara hvað varðar knattspyrnulegan árangur og orðspor á heimsvísu. Stærstur hluti afgangstekna af þátttöku Íslands á EM 2016 og á HM 2018 rann til aðildarfélaganna – 75% af hagnaði vegna þátttöku á HM runnu beint til félaganna. Þetta er eitthvað sem önnur knattspyrnusambönd gera ekki og það skapar ákveðna sérstöðu, enda eru tengslin milli KSÍ og aðildarfélaganna náin og böndin innan okkar raða sterk. Þetta fjármagn og þessar tekjur eru ekki sjálfsagðar og ekki víst að Ísland muni eiga lið í lokakeppni stórmóts í hvert skipti. Við þurfum að marka langtímastefnu og vera fjárhagslega undirbúin þegar til þess kemur að við eigum ekki lið í lokakeppni. Þess vegna m.a. er gríðarlega mikilvægt að styrkja markaðsstarfið, auka sjálfsaflafé KSÍ – fjölga tekjuleiðum – og nýta árangur landsliðanna í það.
Nýr Laugardalsvöllur er hluti af þessari stefnumörkun og framtíðarsýn. Við bindum vonir við að vinna undirbúningsfélags, sem ákveða á framtíð leikvangsins, hefjist fyrir árslok. Við þurfum þjóðarleikvang sem uppfyllir allar kröfur til leikja í alþjóðlegum mótum og tryggir okkur sem besta umgjörð fyrir landsleiki, bikarúrslitaleiki og Evrópuleiki félagsliða, eins og við á. Um það erum við öll sammála. Út frá knattspyrnulegu sjónarmiði er óhugsandi að heimaleikir íslenskra liða í alþjóðlegum mótum á vetrardögum verði leiknir utan landsteinana, en það er þó raunverulegur möguleiki. Við verðum að tryggja að ráðist verði í þetta mikilvæga verkefni og því lokið eins fljótt og mögulegt er. Við sjáum tækifæri til að auka tekjur af daglegri starfsemi mannvirkisins, t.d. með tónleikahaldi. Guns & Roses léku hér á liðnu sumri og Ed Sheeran treður upp sumarið 2019. Þetta eru stórviðburðir sem við bindum vonir við að framhald verði á. En til þess verðum við að eiga mannvirki sem hæfir verkefninu.
Þessi pistill yrði ansi langur ef ég færi yfir allan verkefnalistann. Af nógu er að taka og mér finnst ég vera rétt að byrja. Það er nóg af verkefnum framundan – stórum jafnt sem smáum. Höldum áfram. Styrkjum stoðirnar. Verum framsækin og stórhuga.