A karla - 1-2 tap gegn Sviss
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland tapaði 1-2 fyrir Sviss í Þjóðadeild UEFA, en leikurinn fór fram á Laugardalsvellinum. Það var Alfreð Finnbogason sem skoraði mark Íslands á 81. mínútu.
Sviss var sterkari aðilinn til að byrja með. Þeir héldu boltanum vel og voru nálægt því að skapa sér góð færi, en íslenska vörnin hélt vel. Ísland komst hægt og bítandi betur inn í leikinn og eftir um níu mínútna leik átti Gylfi Sigurðsson fínt skot að marki Sviss, en Mvogo varði vel.
Strákarnir komust betur inn í leikinn eftir þetta og héldu boltanum mun betur. Gylfi átti annað síðan annað færi eftir hálftíma leik, en aftur varði Mvogo vel í marki Sviss. Staðan því 0-0 í hálfleik og Ísland ívið betri aðilinn.
Sviss komu sterkir út í seinni hálfleikinn og tóku stjórn á leiknum frá byrjun. Eftir góða pressu frá þeim tókst þeim að skora fyrsta mark leiksins og var þar Haris Seferovic að verki. Sviss hélt áfram að sækja, en Arnór Ingvi Traustason komst hins vegar í gott færi hinum megin en aftur varði Mvogo.
Þegar um 25 mínútur voru eftir af leiknum var Alfreð nálægt því að jafna fyrir Ísland en enn á ný varði Mvogo vel í marki Sviss. Aðeins tveimur mínútum síðar skoruðu Sviss annað mark sitt, en Michael Lang setti boltann í netið eftir sendingu Xherdan Shaqiri.
Leikurinn hélt áfram að vera nokkuð jafn og hægt og bítandi vann Ísland sig aftur inn í leikinn. Það var svo Alfreð sem skoraði stórglæsilegt mark þegar hann negldi honum upp í hornið af löngu færi. Níu mínútur eftir af leiknum og ennþá nægur tími til að jafna.
Markið kveikti í strákunum og þeir sóttu nánast án afláts til loka leiksins og voru nokkrum sinnum grátlega nálægt því að jafna.
Það tókst hins vegar ekki og 1-2 tap staðreynd gegn Sviss.
Næsti leikur liðsins í Þjóðadeild UEFA er gegn Belgíu, ytra, þann 15. nóvember.