U21 karla - 0-1 tap gegn Norður Írlandi
U21 ára lið karla tapaði 0-1 gegn Norður Írlandi, en leikurinn fór fram á Floridana vellinum. Leikurinn var nokkuð jafn, en Norður Írum tókst að skora sigurmarkið alveg undir lok venjulegs leiktíma.
Arnór Sigurðsson átti gott skot eftir 17 mínútur, en Conor Hazard varði það vel í marki Norður Íra. Um 15 mínútum síðar var Samúel Kári Friðjónsson nálægt því að koma Íslandi yfir, en skot hans fór yfir markið.
Óttar Magnús Karlsson átti síðasta færi Íslands í fyrri hálfleik þegar hann fékk góða sendingu frá Kristófer Inga Kristinssyni, en varnarmaður Norður Íra bjargaði á línu.
Seinni hálfleikur var jafn, bæði lið hörðust vel og reyndu að skapa sér færi en þau voru færri en í þeim fyrri. Það var svo á 90. mínútu sem Norður Írum tókst að skora sigurmarkið. Jamie McDonagh tók þá hornspyrnu sem Daniel Ballard stangaði í netið.
0-1 tap staðreynd, en liðið mætir Spáni á þriðjudaginn í síðasta leik þess í undankeppni EM 2019. Sá leikur hefst klukkan 16:45 og fer einnig fram á Floridana vellinum.
Byrjunarliðið
Aron Snær Friðriksson (M)
Alfons Sampsted
Felix Örn Friðriksson
Torfi Tímoteus Gunnarsson
Axel Óskar Andrésson
Samúel Kári Friðjónsson (F)
Kristófer Ingi Kristinsson
Arnór Sigurðsson
Óttar Magnús Karlsson
Júlíus Magnússon
Willum Þór Willumsson