• þri. 02. okt. 2018
  • Fundargerðir

2210. fundur stjórnar KSÍ - 25. september 2018

Mættir:  Guðni Bergsson formaður, Guðrún Inga Sívertsen, Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason, Ingi Sigurðsson, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Vignir Már Þormóðsson.  
Mættir varamenn:  Kristinn Jakobsson. 

Þá sat Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fundinn og ritaði fundargerð.    

Fjarverandi:  Gísli Gíslason, Ingvar Guðjónsson (varamaður í stjórn), Jóhann Torfason (varamaður í stjórn). 

Þetta var gert:   

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar:
  3. Fjármál
    • Framkvæmdastjóri kynnti drög að 6 mánaða uppgjöri sambandsins.  Samkvæmt því uppgjöri eru rekstrargjöld 40% af áætlun ársins en hafa ber í huga að stórir útgjaldaliðir falla á seinni hluta ársins.
    • Framkvæmdastjóri kynnti drög að HM uppgjöri.  Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að kostnaður við þátttöku Íslands á HM væri 914 milljónir en miðað við bráðabirgðauppgjör er kostnaður um 903 milljónir.  Stjórn lýsti yfir ánægju með vandaða fjárhagsáætlun fyrir HM.
    • Fulltrúi FIFA heimsótti KSÍ í byrjun september og fór yfir styrkjamál FIFA.  Í framhaldi af þeirri heimsókn er hægt að ljúka skýrslugerð fyrir síðasta keppnistímabil en kröfur FIFA gagnvart aðildarsamböndum sínum í skýrslugerð verða æ flóknari og umfangsmeiri.  Þá er og hægt að ljúka umsókn um styrki fyrir 2018.  Tillaga framkvæmdastjóra um útfærslu á styrkumsóknum var samþykkt.

  4. Mótamál
    • Lagt fram yfirlit yfir sigurvegara í mótum utanhúss.
    • Deildarkeppni er allri lokið nema í Pepsi-deild karla og örfáir leikir eftir í öðrum flokkum.  Rætt um sumarleyfi yngri flokka.  Margar ábendingar varðandi mótahald yngri flokka hafa borist stjórnarmönnum í heimsóknum til aðildarfélaga.  Þessar ábendingar verða teknar saman í október.  Rætt um að kominn sé tími til að endurskoða mótareglur sambandsins, en sumar þeirra eru barns síns tíma, m.a. þegar litið er til þeirra möguleika sem bjóðast með fleiri gervigrasvöllum.
    • Rætt ýtarlega um málsmeðferð í tengslum við leik Hugins og Völsungs í 2. deild karla.  Stjórn sammála um að rýna þarf vinnulag og huga að endurskoðun reglugerða.  Stjórn samþykkti að senda  afsökunarbeiðni til Hugins.
    • Rætt um tillögu ÍTF um breytingu á félagaskiptaglugganum og þau svör sem bárust frá aðildarfélögum um tillögu ÍTF.  Meirihluti þeirra svara sem barst var fylgjandi tillögu ÍTF en þó komu til dæmis fram hugmyndir um mismunandi glugga hjá konum og körlum (í tengslum við Evrópukeppni félagsliða), lengja félagaskiptagluggann inn í ágúst og mótrök gegn því að lengja seinni gluggann.  Þá kom sú hugmynd fram að ef það á að lengja sumargluggann þá loki vorglugganum fyrr.  Í ljósi vilja meirihluta aðildarfélaga KSÍ samþykkti stjórn að óska eftir því við laga- og leikreglnanefnd að nefndin undirbúi þær reglugerðarbreytingar sem þarf til að breyta félagaskiptaglugganum til samræmis við tillögu ÍTF og ennfremur að starfsmenn skrifstofunnar undirbúi umsókn til FIFA því til samræmis.  Þá vísar stjórn ennfremur þeirri hugmynd til laga- og leikreglnanefndar að skoða sérstaklega hvort ástæða sé til þess að hafa sitthvorn félagaskiptagluggann fyrir karla og konur.

  5. Dómaramál
    • Niðurröðun fyrir lokaumferð Pepsi-deildar karla er lokið.  Strax að loknu tímabil hefst undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil.
         
  6. Heimsóknir til aðildarfélaga
    • Þegar hafa eftirtalin félög verið heimsótt:   Álftanes, Haukar, KFG, Breiðablik, ÍA, Kári, Skallagrímur, Snæfell/UDN, Tálknafjörður, Vestri, Vesturbyggð; ÍH, Hörður, Víkingur Ó, Þróttur R., Hamar, KFR, KFS, Selfoss, ÍBV, Afturelding, Fjölnir, Fylkir, Dalvík/Reynir, Kormákur/Hvöt, Tindastóll og KF.
    • Fleiri heimsóknir eru fyrirhugaðar á næstu vikum.  Í október verður farið yfir skýrslur frá heimsóknunum og meginatriði dregin út.

  7. Landsliðsmál
    • Rætt um úrslit landsleikja frá síðasta stjórnarfundi.

      A karla
      Liðið hóf keppni í Þjóðadeild UEFA og hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum. Þrátt fyrir það er ennþá möguleiki fyrir liðið að enda í efsta styrkleikaflokki fyrir undankeppni EM, en 10 af 12 efstu liðinum í deild A í Þjóðadeildinni verða í efsta flokknum.
      Sviss – Ísland = 6-0
      Ísland – Belgía = 0-3

      A kvenna
      Ísland var á toppi riðilsins þegar tveir leikir voru eftir en endaði í 2. sæti og missti af sæti í umspili um sæti á HM 2019.
      Ísland – Þýskaland = 0-2
      Ísland – Tékkland = 1-1

      U21 karla
      Strákarnir héldu áfram keppni í undankeppni EM 2019 og léku tvo leiki í september. Eftir þá er liðið í fjórða sæti þegar tveir leikir eru eftir, en þeir eru gegn Spáni og Norður Írlandi og fara báðir fram á Íslandi í október.
      Ísland – Eistland = 5-2
      Ísland – Slóvakía = 2-3

      U19 karla
      Ísland lék tvo æfingaleiki gegn Albaníu ytra í undirbúningi sínum fyrir undankeppni EM og fer riðill liðsins fram í Tyrklandi um miðjan nóvember. Þar mætir liðið Tyrklandi, Moldóva og Englandi
      Albanía - Ísland = 1-0
      Albanía – Ísland = 1-4

      U19 kvenna
      Liðið lék tvo æfingaleiki í Noregi í undirbúningi sínum fyrir undankeppni EM, en riðill liðsins fer fram í Armeníu dagana 2.-8. október. Þar mætir liðið Armeníu, Belgíu og Wales.
      Noregur – Ísland = 1-0
      Svíþjóð – Ísland = 4-5

      U17 kvenna
      Ísland komst áfram í milliriðla í undankeppni EM 2019, en liðið lék undanriðil sinn í Moldóva og fór síðasti leikurinn fram í dag þegar stelpurnar töpuðu fyrir Englandi. Liðið endaði því í öðru sæti riðilsins.
      Aserbaídsjan – Ísland = 0-1
      Moldóva – Ísland = 0-6
      England – Ísland = 2-0

      U15 karla
      Úrvalslið frá Peking og landslið Hong Kong komu til landsins um miðjan ágúst og léku gegn U15 ára liði Íslands, ásamt því að leika innbyrðis.
      Ísland – Peking = 13-0
      Ísland – Hong Kong = 7-0

    • Rætt um landsliðsþjálfaramál:
      • Samþykkt að Guðni Bergsson formaður, Guðrún Inga Sívertsen varaformaður og formaður landsliðsnefndar kvenna og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fari með umboð stjórnar í ráðningarferli þjálfara fyrir A landsliðs kvenna.
      • Stjórn gaf framkvæmdastjóra heimild að ganga til viðræðna við þá þjálfara sem að eru með lausa samninga í lok ársins

  8. Málefni Laugardalsvallar
    • Guðni Bergsson formaður greindi frá ráðstefnu sem Bresk-íslenska viðskiptaráðið, KSÍ og Breska sendiráðið í Reykjavík efna til um þjóðarleikvang og reynslu Breta af Ólympíuleikunum, 26. september í húsakynnum KSÍ á Laugardalsvelli.
    • Guðni Bergsson formaður fór yfir stöðu mála varðandi Laugardalsvöll en vonir standa til þess að skipan í undirbúningsfélag verði lokið fljótlega.

  9. Önnur mál
    • Stjórn hefur mótttekið bréf frá starfsfólki sambandsins, dags. 31. ágúst 2018, þar sem lýst er yfir áhyggjum af vinnuálagi. Stjórn og framkvæmdastjóri taka málið alvarlega og munu bregðast við, m.a. í samráði við heilsufyrirtækið Auðnast.
    • Lagt fram ársfjórðungsyfirlit um miðla KSÍ en ljóst er að mikill árangur hefur náðst síðasta árið á þessu sviði.
    • UEFA hefur tilkynnt að FC Sækó fái verðlaun í flokknum „Besta grasrótarverkefnið“ á Grasrótarverðlaunum UEFA 2018.  Í tilkynningu UEFA segir að FC Sækó spili mikilvægt samfélagslegt hlutverk á Íslandi með því að bæta andlega og líkamlega heilsu fólks.
    • Næstu 10 daga munu 4 þjálfarar og fræðslustjóri frá Karabísku eyjunni Dominica vera í starfsnámi hér á landi.  Forsagan er að öflugur fellibylur skók eyjuna í fyrra og eyðileggingin og mannfall var töluverð. CONCACAF og UEFA veitti knattspyrnusambandi Domenica fjárhagslegan styrk til uppbyggingar knattspyrnunnar og í framhaldi varð þessi heimsókn að veruleika.
    • Stjórn samþykkti að senda fyrirspurn til UEFA og FIFA vegna þeirra aðstöðu sem Þór/KA lenti í vegna skörunar leikdaga FIFA og UEFA en félagið getur ekki stillt upp sínu sterkasta liði í Evrópukeppni félagsliða.   

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 20:00