• mán. 17. sep. 2018
  • Fræðsla

Göngubolti kynntur í Grasrótaviku UEFA

Grasrótarvika UEFA hefst sunnudaginn 23. september nk. í tengslum við Íþróttaviku Evrópu (European Week of Sport) og stendur til 30. september.  Af því tilefni ætlar KSÍ, í samstarfi við Knattspyrnufélagið Þrótt í Reykjavík, að bjóða upp á kynningu á því sem kallast heilsubolti, eða göngubolti. Þróttur hefur undanfarin misseri haldið úti öflugu starfi á þessu sviði, þar sem fólk á besta aldri hittist, spilar og hefur gaman.  Kynningin verður sunnudaginn 23. september og hefst hún kl. 13:30 á Eimskipsvellinum hjá Þrótti. Öllum er velkomið að koma og prófa, karlar, konur, ungir sem aldnir.

Heilsubolti hefur verið að ryðja sér til rúms víðsvegar í Evrópu að undanförnu og nýtur mikilla vinsælda víða um álfuna.  Markmið heilsuboltans er einfalt, að gefa fólki kost á að spila fótbolta eins lengi og mögulegt er - skemmtileg og heilsusamleg hreyfing fyrir líkama og sál.

Fyrr þennan sama dag, 23. september, fara fram Íslandsleikar Special Olympics, einnig á Þróttarvellinum og hefjast þeir kl. 10:00. KSÍ hvetur fólk til að mæta á þann viðburð og hvetja fótboltakempurnar sem þar leika listir sínar áfram.

Fyrr í sumar hittist hópur fólks á Eimskipsvellinum hjá Þrótti og var ekki annað að sjá en allir hafi haft gaman af gönguboltanum.

Grunnreglur leiksins eru mjög einfaldar:

  1. Bannað er að hlaupa. Leikmaður verður að hafa annan fótinn á jörðinni.
  2. Það er engin rangstaða.
  3. Sóknarmenn mega ekki fara innfyrir vítateig (aukaspyrna).
  4. Varnarmenn mega ekki fara innfyrir eigin vítateig (vítaspyrna).
  5. Markvörður má ekki fara útfyrir vítateig (vítaspyrna).
  6. Rennitæklingar eru með öllu bannaðar.
  7. Allar aukaspyrnur eru óbeinar.
  8. Markvörður verður að spyrna frá marki eða kasta með "undir arm" kasti.
  9. Lið mega vera kynja og -aldursblönduð.

KSÍ og Special Olympics vonast til að sjá sem flesta á svæðinu - til að taka þátt eða fylgjast með og taka þátt í gleðinni.