Vegna umfjöllunar um atvik í leik Hugins og Völsungs, samskipti KSÍ og Völsungs og niðurstöðu áfrýjunardómstóls
Vegna umfjöllunar um atvik í leik Hugins og Völsungs í 2. deild karla þann 17. ágúst síðastliðinn, samskipti KSÍ og Völsungs vegna sama máls og niðurstöðu áfrýjunardómstóls, vill KSÍ koma neðangreindu á framfæri.
Óumdeilt er að dómari leiksins gerði mistök þegar leikmanni Völsungs var sýnt rautt spjald í umræddum leik.
Meðferð leikskýrslu fyrrgreinds leiks af skrifstofu KSÍ var í samræmi við hefðbundið verklag og dómarinn fyllti skýrsluna út í samræmi við leiðbeiningar frá skrifstofu KSÍ, sem upplýsti Völsung um það verklag með tölvupósti sem sendur var fulltrúum félagsins að morgni mánudags 20. ágúst. Næsti leikur Völsungs í mótinu var gegn Leikni F. þriðjudaginn 21. ágúst. Leikmaðurinn sem fékk að líta rauða spjaldið í leik Hugins og Völsungs fór ekki í leikbann vegna verklags skrifstofu KSÍ og gat því tekið þátt í leiknum við Leikni F. Engu var leynt.
Í áfrýjunardómstóli KSÍ sitja fulltrúar kjörnir á ársþingi KSÍ. Dómur áfrýjunardómstóls eftir áfrýjun Völsungs er fenginn samkvæmt eðlilegu og samþykktu ferli innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Dómurinn er endanlegur og honum verður að sjálfsögðu fylgt.
Framkvæmdastjóri KSÍ vísaði ummælum fulltrúa Völsungs í yfirlýsingu tengdri umræddu máli til aga- og úrskurðarnefndar. Völsungi var tilkynnt þessi ákvörðun með hefðbundnu bréfi frá aga- og úrskurðarnefnd og félaginu gefinn vikufrestur til að skila greinargerð vegna málsins. Bréfið til félagsins og vikufresturinn sem gefinn var er einnig samkvæmt eðlilegu og samþykktu ferli innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Engu var hótað.
Öll höfum við ástríðu fyrir þessari íþrótt og það er eðlilegt að fólk sýni tilfinningar. Við verðum þó að gæta hófs og ekki ganga of langt. Gagnrýni á það sem betur mætti fara er eðlileg og mikilvæg. Ásakanir um óheiðarleika og hótanir eru hins vegar alvarlegar - engu máli skiptir hverjum slíkri ásökun er beint að.
KSÍ mun ekki skorast undan ábyrgð í þessu máli og ljóst er að skrifstofa KSÍ mun endurskoða sitt verklag. Við þurfum að læra af þeim mistökum og erfiðu samskiptum sem áttu sér því miður stað.
Innan knattspyrnuhreyfingarinnar ríkir andi samkeppni, eins og vera ber þegar um er að ræða keppnisíþrótt. Heilbrigð og eðlileg samkeppni milli liða er það sem drífur hreyfinguna og þessa íþrótt sem okkur þykir svo vænt um áfram. Samstaða innan knattspyrnuhreyfingarinnar er ekki síður mikilvæg og í samstöðunni er drifkraftur sem knýr okkur áfram til stórra verka í sameiningu.
Stöndum vörð um heilindi íslenskrar knattspyrnu - stöndum saman.