• lau. 08. sep. 2018
  • Landslið

A karla - 6-0 tap gegn Sviss í fyrsta leik í Þjóðadeild UEFA

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland tapaði 6-0 fyrir Sviss í fyrsta leik liðsins í Þjóðadeild UEFA, en leikið var ytra. Ísland mætir Belgíu á þriðjudaginn á Laugardalsvelli, en sá leikur hefst klukkan 18:45.

Það var mikill hraði í byrjun leiks og eftir um 3 mínútur var Gylfi Sigurðsson ekki langt frá því að koma sér í færi en Xhaka tók boltann af honum. Sviss þaut fram og Hannes Halldórsson varði vel fast skot Seferovic. Ísland byrjaði annars leikinn vel og var leikurinn jafn til að byrja með, en strákarnir voru ekki langt frá því að skapa sér álitleg færi.

Á 13. mínútu var Jón Daði Böðvarsson við það að sleppa í gegn þegar brotið var á honum. Gylfi tók aukaspyrnuna og var Sverrir Ingason mjög nálægt því að ná til boltans. Aðeins tveimur mínutum síðar tók Sviss forystunna. Steven Zuber fékk þá boltann í teignum og negldi honum í slánna og inn. Hreint út sagt frábært mark.

Strákarnir svöruðu markinu ágætlega og átti Jón Daði skot í teignum, en Sommer varði það nokkuð örugglega í marki Sviss. 11 mínútum eftir fyrsta markið skoraði Sviss aftur. Shaqiri tók þá aukaspyrnu sem Hannes varði vel. Boltinn datt fyrir Schar sem sendi hann beint á Zakaria og setti hann boltann í autt netið. Staðan orðin 2-0 fyrir Sviss.

Leikurinn róaðist örítið eftir þetta, en Sviss hélt áfram að stjórna leiknum. Breel Embolo var nálægt því að komast í gegn eftir frábæra sendingu frá Ricardo Rodriguez, en fyrsta snerting hans var ekki nægilega góð og Hannes náði boltanum. Staðan því 2-0 í hálfleik.

Sviss byrjaði síðari hálfleikinn eins og þeir enduðu þann fyrri og skoruðu þriðja markið strax eftir átta mínútur. Shaqiri skoraði þá frábært mark úr aukaspyrnu. Staðan orðin 3-0. Sviss hélt áfram að sækja eftir markið og stjórnuðu leiknum algjörlega og skoruðu fjórða markið 15 mínútum seinna. Haris Seferovic skoraði þá eftir frábæra stoðsendingu frá Fabian Schar. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Albian Ajeti fimmta markið. Sviss algjörlega með stjórn á leiknum.

Sjötta markið kom svo á 83. mínútu þegar Admir Mehmedi skoraði eftir góða sendingu frá Denis Zakaria. 6-0 tap staðreynd.

Næsti leikur liðsins er á þriðjudaginn þegar Belgía mætir á Laugardalsvöll. Leikurinn hefst klukkan 18:45.