• þri. 04. sep. 2018
  • Landslið

A kvenna - 1-1 jafntefli gegn Tékklandi

Ísland gerði jafntefli við Tékklandi, 1-1, í síðasta leik liðsins í undankeppni HM 2019. Það var Glódís Perla Viggósdóttir sem skoraði mark Íslands undir lok leiksins.

Íslenska liðið byrjaði að krafti og átti Elín Metta Jensen fyrsta færi leiksins strax á 6. mínutu þegar hún slapp í gegn um vörn Tékka en Votikóva, markvörður Tékka, varði vel frá henni.

Það voru hins vegar Tékkar sem skoruðu fyrsta markið á 11. mínútu, þegar fyrirgjöf þeirra rataði á kollinn á Terezu Szewleczkovu sem kom boltanum framhjá Guðbjörgu Gunnarsdóttur í markinu.

Íslensku stelpurnar komu tvíefldar til baka eftir markið og Gunnhildur Yrsa var nálægt því að skora á 15. mínutu, en skalli hennar fór í innanverða stöngina og út.

Á 27. mínútu slapp Elín Metta aftur ein í gegn þar sem hún virtist síðan vera felld af markmanni Tékka er hún reyndi að leika á hana, en dómari leiksins dæmdi ekkert og sóknin rann út í sandinn.

Eftir fínan kafla hjá íslenska liðinu komumst Tékkar betur inn í leikinn og róaðist hann aðeins, þó voru íslensku stelpurnar ívið sterkari aðilinn. Vörn Tékka hélt þó vel og gáfu þær fá færi á sér fram að hálfleik. Tékkar fóru því með 1-0 forystu inn í klefa. 

Íslenska liðið byrjaði sinni hálfleikinn rétt eins og þann fyrri af miklum krafti og komu boltanum í markið eftir hornspyrnu á 48. mínútu, en dómari leiksins var búinn að dæma brot á íslenska liðið, og staðan því enn 1-0 fyrir Tékkum.

Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins en á 58. mínútu fengu Ísland færi. Eftir vel útfærða skyndissókn fékk Gunnhildur Yrsa boltann í ákjósanlegri stöðu fyrir framan vítateig Tékkana, rúllaði boltanum á Selmu Sól sem átti fína tilraun, en Votikóva varði vel.

Tékkarnir sóttu í sig veðrið og voru meira með boltann og höfðu ágætis tök á leiknum næstu 10 mínúturnar en á 68. mínútu gerðu Íslendingar breytingu á liði sínu og Agla María Albertsdóttir kom inn í staðinn fyrir Selmu Sól Magnúsdóttur.

Á 74. mínútu kom Berglind Björg Þorvaldsdóttir inná í stað Gunnihildar Yrsu.

Íslensku stelpurnar komu sér aðeins betur inn í leikinn og þjörmuðu að marki Tékka, þær lögðu allt í sölurnar og voru nálægt því að uppskera jöfnunnarmark þegar Sif Atladóttir átti langt innkast inná teig Tékka en Bartonova, varnarmaður Tékka bjargaði á marklínu.

Stórsókn Íslendinga hélt áfram og á 88. mínútu skoraði Glódís Perla Viggósdóttir. Boltinn barst á hana eftir langt innkast frá Sif og Glódís klippti boltann smekklega framhjá Votikóvu í markinu.

Á 90. mínútu fengu þær víti þegar brotið var á Elínu Mettu innan teigs. Sara Björk Gunnarsdóttir fór á punktinn en Votikova varði spyrnuna frábærlega.

1-1 jafntefli staðreynd og því ljóst að Ísland kemst ekki í umspil um sæti á HM 2019 í Frakklandi.