• lau. 01. sep. 2018
  • Landslið

A kvenna - 0-2 tap gegn Þýskalandi

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

A landslið kvenna tapaði 0-2 gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2019, en leikið var fyrir framan fullan Laugardalsvöll. Það var Svenja Huth sem skoraði bæði mörk Þjóðverja.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og það var ljóst að stelpurnar ætluðu ekkert að gefa eftir í leiknum. Leikurinn var nokkuð jafn framan af og sköpuðu liðin sér fá færi. Það var svo á 12. mínútu leiksins sem Þjóðverjar voru nálægt því að taka forystuna eftir skot í slá. Fimm mínútum síðar áttu Þjóðverjar fína fyrirgjöf fyrir markið, en skot Verena Schweers fór rétt framhjá marki Íslands.

Leikurinn hélt áfram að vera nokkuð jafn, Þjóðverjar voru aðeins meira með boltann en Ísland varðist vel og gaf fá færi á sér. Á 28. mínútu átti Selma Sól Magnúsdóttir ágætt skot að mark sem Almuth Schult varði vel.

Um sex mínútum síðar átti Leonie Maier skot fyrir utan teig en Guðbjörg varði vel. Þýskaland hélt áfram að sækja og stuttu síðar skallaði Lea Schuller boltann framhjá eftir hornspyrnu. 

Það var svo á 42. mínútu sem Þýskaland tók forystuna. Guðbjörg varði þá vel skot Melanie Leupolz, en Svenja Huth náði frákastinu og setti boltann í markið. Staðan því orðin 0-1 fyrir Þýskaland. Stuttu síðar fengu bæði lið góð færi. Fyrst varði Schult skot Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og síðan átti Alexandra Popp skalla rétt framhjá mark Íslands.

Seinni hálfleikur hófst á svipaðan hátt og sá fyrri endaði. Þjóðverjar voru meira með boltann á meðan Ísland sat til baka. Eftir um sex mínútna leik var Þýskaland nálægt því að bæta við forystuna. Eftir mikinn darraðadans í teig Íslands átti Schuller skot yfir markið.

Ísland komst þó fljótlega betur inn í leikinn og á 57. mínútu átti Fanndís Friðriksdóttir skot rétt framhjá þýska markinu. Stelpurnar ekki langt frá því að jafna metin.

Á 63. mínútu gerði Ísland fyrstu skiptingu sína. Þá kom Svava Rós Guðmundsdóttir inná, en útaf fór Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Þýskaland hélt áfram að hafa boltann meira, en þó án þess að skapa sér opin færi. Það var hins vegar á 74. mínútu sem boltinn féll fyrir Huth í teignum og hún setti boltann örugglega í netið. Staðan því orðin 0-2 fyrir Þýskaland.

Strax eftir markið gerði Ísland skiptingu. Agla María Albertsdóttir kom inn á, en Selm sól fór útaf. Fljótlega eftir þetta voru Þjóðverjar nálægt því tvisvar að auka við forystu sína.

Á 84. mínútu þurfti Rakel Hönnudóttir að fara útaf vegna meiðsla. Í hennar stað kom Guðrún Arnardóttir.

Stelpurnar héldu áfram að reyna að minnka forskotið allt til loka leiksins, en án árangurs. 0-2 tap því staðreynd.

Ísland mætir Tékklandi á þriðjudaginn í síðasta leik sínum í undankeppni HM 2019, en leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst klukkan 15:00.