A karla - 1-1 jafntefli í fyrsta leik gegn Argentínu
Ísland gerði 1-1 jafntefli gegn Argentínu í fyrsta leik liðsins á HM í Rússlandi. Sergio Aguero kom Argentínumönnum yfir á 19. mínútu, en fjórum mínútum síðar jafnaði Alfreð Finnbogason og þar við sat. Hannes Þór Halldórsson varði frábærlega vítaspyrnu frá Lionel Messi í síðari hálfleik.
Argentína byrjaði leikinn betur og var meira með boltann á meðan Ísland lá til baka og gaf fá færi á sér. Argentína fékk þó tvö ágæt færi fyrstu 10 mínúturnar, báðar eftir hornspyrnu, í báðum tilvikum fór boltinn framhjá. Stuttu síðar fékk Ísland tvö góð færi. Fyrst komst Alfreð í ágætis færi utarlega í teignum en skot hans fór yfir. Vörn Argentínu lenti síðan í vandræðum eftir markspyrnuna og var Birkir Bjarnason mjög nálægt því að koma Íslandi yfir, en skot hans fór framhjá.
Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta, en eftir sem áður hélt Argentína áfram að vera meira með boltann á meðan strákarnir vörðust. Lionel Messi átti ágæt skot eftir 17 mínútur sem Hannes varði vel í marki Íslands, en á 19. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Þá átti Marcos Rojo skot fyrir utan teig sem barst til Aguero, en hann setti hann upp í hægra hornið með frábæru skoti. 1-0 fyrir Argentínu. Tveimur mínútum síðar komst Messi aftur í skotfæri, en aftur varði Hannes.
Það tók Ísland ekki langan tíma að jafna metin. Á 23. mínútu átti Gylfi Sigurðsson gott skot sem William Caballero varði, en hver annar en Alfreð Finnbogason var mættur til að taka frákastið og hamra honum í netið. Staðan því orðin jöfn.
Augljóst var að markið kom Argentínumönnum aðeins í opna skjöldu, en þeir náðu fljótlega tökum á leiknum aftur en áttu enn á ný erfitt með að brjóta sterka vörn Íslands á bak aftur. Gylfi var síðan nálægt því að koma Íslandi yfir í lok hálfleiksins, en Caballero varði vel skot hans út í teiginn þar sem Alfreð var mjög nálægt því að komast í boltann. Staðan því jöfn í hálfleik.
Argentína hélt áfram að stjórna leiknum í seinni hálfleik og strákarnir héldu áfram að verjast vel. Illa gekk hjá þeim að brjóta Ísland niður en á 64. mínútu fékk Argentína vítaspyrnu þegar Hörður Björgvin braut á Max Meza. Á punktinn steig Lionel Messi, en Hannes Þór varði spyrnu hans frábærlega.Stuttu fyrir spyrnuna kom Rúrik Gíslason inná í stað Jóhanns Bergs Guðmundssonar.
Argentínumenn héldu áfram að sækja á vörn Íslands og á 72. mínútu átti Ever Banega gott skot, en beint á Hannes sem hélt honum auðveldlega. Mínútu síðar fengu þeir aukaspyrnu á hættulegum stað. Messi tók hana, en hún endaði beint í vegg Íslands. Á 76. mínútu fór Aron Einar Gunnarsson útaf og í stað hans kom Ari Freyr Skúlason inn á.
Á 81. mínútu var Argentína nálægt því að komast yfir aftur. Messi fékk þá boltann fyrir utan teig en skot hans fór rétt framhjá marki Íslands. Tíu mínútum síðar varði Hannes Þór frábærlega skot Pavon utan af kanti. Pressan orðin mikil á íslenska markið á þessum tímapunkti. Hannes varði stuttu síðar aftur, þá skot Mascherano. Strax eftir það kom Björn Bergmann Sigurðarson inn á völlinn, en útaf fór Alfreð Finnbogason.
Argentína hélt mikilli pressu á mark Íslands allt til leiksloka, en 1-1 jafntefli staðreynd. Næsti leikur Íslands er föstudaginn 22. júní gegn Nígeríu í Volgograd.