• mán. 11. jún. 2018
  • Landslið

A kvenna - 2-0 sigur gegn Slóveníu og Ísland á toppinn

A landslið kvenna vann 2-0 sigur gegn Slóveníu, en Glódís Perla Viggósdóttir skoraði bæði mörk liðsins í síðari hálfleik. Sigurinn fleytti liðinu í efsta sæti riðilsins þegar aðeins tveir leikir eru eftir.

Ísland byrjaði leikinn mun betur og eftir sex mínútur skallaði Ingibjörg Sigurðardóttir boltann framhjá eftir frábæra hornspyrnu Selmu Sólar Magnúsdóttur. Stelpurnar héldu áfram að vera sterkari aðilinn og um tíu mínútum síðar átti Rakel Hönnudóttir skot inni í teig, en það fór í varnarmann.

Leikurinn jafnaðist aðeins eftir þetta og skiptust liðin á að halda boltanum, en þó án þess að skapa sér opin færi þó íslensku stelpurnar hafi oft verið nálægt því. Það var svo á 36. mínútu sem Ingibjörg átti góðan sprett upp hægri kantinn, setti hann fastan fyrir eftir jörðinni en Hörpu Þorsteinsdóttur tókst ekki að koma boltanum framhjá markverði Slóveníu.

Fanndís Friðriksdóttir átti síðan fast skot úr aukaspyrnu á 43. mínútu, en markvörður Slóveníu varði skotið mjög vel.

Slóvenar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti, settu mikla pressu á íslensku vörnina og voru ekki langt frá því að skapa sér opin færi. Á 53. mínútu gerði Ísland fyrstu skiptinguna sína. Elín Metta Jensen kom þá inn á, en Rakel Hönnudóttir fór útaf.

Það voru svo íslensku stelpurnar sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Hallbera Guðný Gísladóttir átti frábæra fyrirgjöf sem Glódís Perla setti í netið. 1-0 fyrir Ísland eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfleik.

Markið fyllti Ísland af sjálfstrausti og fjórum mínútum eftir það var Elín Metta nálægt því að skora en markvörður Slóvena varði vel. Á 65. mínútu kom Sigríður Lára Garðarsdóttir inn á, en útaf fór Agla María Albertsdóttir.

Ísland hafði á þessum tímapunkti tekið öll völd á vellinum og þremur mínútum síðar skoraði Glódís Perla aftur. Selma Sól átti þá frábæra hornspyrnu sem Glódís stangaði í markið. 2-0. 

Leikurinn róaðist aðeins niður fljótlega og bæði liðin héldu boltanum ágætlega, en áttu erfitt með að skapa sér góð færi. Á 83. mínútu gerði Ísland síðustu skiptinguna sína, en þá kom Berglind Björg Þorvaldsdóttir inn á og Harpa Þorsteinsdóttir fór útaf.

Stelpurnar kláruðu leikinn vel, gáfu ekki færi á sér og 2-0 sigur staðreynd.