KSÍ kolefnisjafnar ferð landsliðsins á HM í Rússlandi í samstarfi við Votlendissjóðinn
Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að kolefnisjafna ferð landsliðsins og aðstoðarmanna þess á HM í Rússlandi síðar í þessum mánuði í samstarfi við Votlendissjóðinn.
Þetta var formlega staðfest á Bessastöðum í dag þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðni Bergsson formaður KSÍ, Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins hófust handa við að moka ofan í fyrsta skurðinn, með dyggri aðstoð annarra stuðningsaðila verkefnisins.
Birna Sigrún Hallsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice), átti hugmyndina að kolefnisjöfnun HM-ferðarinnar, en hún hefur reiknað út þá losun gróðurhúsalofttegunda sem fyrirsjáanlega mun eiga sér stað vegna flugs og akstur knattspyrnulandsliðsins í Rússlandsferðinni. Samkvæmt þessum útreikningum mun heildarlosunin samsvara 50-60 tonnum af koldíoxíði.
Þessi losun samsvarar árlegri losun frá u.þ.b. 3 hekturum af framræstu votlendi og því hefur KSÍ samið við nýstofnaðan Votlendissjóð um að endurheimta samsvarandi flatarmál. Embætti forseta Íslands hefur stutt myndarlega við þessa viðleitni með því að leggja til votlendi í landi Bessastaða, sem framræst var með skurðgreftri um miðja síðustu öld.
Framlag KSÍ nægir til að breyta 3 ha af þessu landi í votlendi á nýjan leik. Þar með mun heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá íslensku landi minnka um u.þ.b. 60 tonn á ári mörg næstu ár. G.T. Verktakar hafa ákveðið að styðja verkefnið með því að koma öllu efni sem nýtt verður til að fylla í skurðina á svæðið og Fuglavernd mun síðan vakta fuglalíf á svæðinu.
Samkvæmt samkomulagi KSÍ við Votlendissjóð nýtist framlag sambandsins ekki aðeins til að kolefnisjafna Rússlandsferðina, heldur einnig til að kolefnisjafna sambærilegar ferðir knattspyrnumanna af báðum kynjum tvö næstu ár. Loftslagslegur ávinningur af endurheimtinni sem hófst formlega á Bessastöðum í dag mun þó nýtast þjóðinni og komandi kynslóðum til mun lengri tíma, enda er um varanlega endurheimt að ræða.