A karla - 2-2 jafntefli gegn Gana í síðasta leik liðsins fyrir HM í Rússlandi
A landslið karla gerði 2-2 jafntefli við Gana á Laugardalsvelli, en það voru Kári Árnason og Alfreð Finnbogason sem skoruðu mörk Íslands.
Ísland byrjaði leikinn vel og eftir aðeins tvær mínútur átti Gylfi Þór Sigurðsson góða fyrirgjöf fyrir markið, Björn Bergmann Sigurðarson tók boltann niður en tókst ekki að koma skoti á markið. Aðeins fjórum mínútum síðar kom Jóhann Berg Guðmundsson boltanum inn í teig til Alfreðs en varnarmaður Gana kom sér fyrir boltann. Fyrsta mark leiksins kom svo upp úr horninu. Jóhann Berg átti þá góða spyrnu fyrir markið sem Kári stangaði í netið. 1-0 fyrir Ísland.
Strákarnir voru svo nálægt því að skora nokkrum mínútum síðar eftir hættulega aukaspyrnu Gylfa Þórs. Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins og liðin skiptust á því að sækja, en þó án þess að skapa sér opin færi. Þó þurfti Hannes Þór Halldórsson að taka á honum stóra sínum eftir gott skot Gana fyrir utan teig, en hann varði boltann frábærlega í horn.
Það var svo þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik sem annað mark leiksins leit dagsins ljós. Alfreð skoraði þá í autt markið eftir að skot Gylfa hafði verið varið. Staðan 2-0 í hálfleik.
Strákarnir byrjuðu seinni hálfleikinn jafnvel og þann fyrri og voru ekki langt frá því að setja þriðja mark leiksins strax á fyrstu mínútu hans, Gylfi átti þá flotta fyrirgjöf en strákunum tókst ekki að koma boltanum á markið.
Leikurinn róaðist þó fljótlega aðeins, en eftir um tíu mínútna leik fékk Ísland aukaspyrnu úti á kanti. Jóhann Berg sendi frábæran bolta fyrir sem Kári skallaði að marki Gana, en Lawrence Ati Zigi varði vel í marki Gana. Nokkrum mínútum síðar áttu Gana ágætis skalla að marki Íslands, en strákarnir hreinsuðu vel.
Það var svo á 64. mínútu sem fyrsta skipting Íslands leit dagsins ljós. Jón Daði Böðvarsson kom þá inná í stað Alfreðs Finnbogasonar. Þremur mínútum síðar kom Rúrik Gíslason inná í stað Gylfa Þórs Sigurðssonar. Í millitíðinni minnkaði Gana muninn með glæsilegu skoti upp í hornið eftir góða hornspyrnu. Staðan því orðin 2-1.
Gana pressuðu stöðugt á íslensku vörnina og voru oft nálægt því að koma sér í góð færi. Jóhann Berg var hins vegar nálægt því að bæta við marki stuttu eftir að Gana minnkaði muninn. Hann tók þá aukaspyrnu fyrir utan teig, en markvörður Gana varði vel í markinu.
Ísland gerði þriðju skiptinguna sína þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum. Sverrir Ingi Ingason kom inná í stað Birkis Bjarnasonar. Aðeins þremur mínútum síðar átti Kári Árnason langt innkast sem skallað var út fyrir teig. Þar var Jóhann Berg mættur, en gott skot hans fór af varnarmanni.
Gana hélt áfram að vera meira með boltann og settu mikla pressu á íslenska liðið, sem þó varðist vel. Þeim tókst hins vegar að jafna leikinn þegar um þrjár mínútur voru eftir. Staðan orðin 2-2 og Ólafur Ingi Skúlason kom stuttu síðar inná í stað Emils Hallfreðssonar. Mínútu síðar var það Arnór Ingvi Traustason sem kom inná í stað Björns Bergmanns Sigurðarsonar.
Gana hélt áfram að pressa til leiksloka, en tókst ekki að opna vörn Íslands. Lokastaðan því 2-2.