Knattspyrna er íþrótt fyrir alla
Krakkarnir sem leiða liðin inn á völlinn fyrir vináttuleik karlalandsliða Íslands og Noregs koma úr röðum fatlaðra íþróttamanna, nánar tiltekið úr Klettaskóla. Markmiðið að vekja athygli á því að knattspyrna er íþrótt fyrir alla.
Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi hafa verið í áralōngu samstarfi við KSÍ þar sem fjölbreytt verkefni hafa verið sett á fót í þeim tilgangi að efla þátttöku fatlaðra í knattspyrnu. Frá árinu 2000 hafa verið haldnir Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu en þar keppa einstaklingar með fötlun/sérþarfir og keppt er í tveimur flokkum sem miða við mismunandi styrkleikastig. Dómarar koma frá KSÍ og landsliðsþjálfarar og landsliðsmenn hafa mætt á marga leika til að afhenda verðlaun og sjá um upphitun. Einnig hafa knattspyrnufélög komið til samstarfs og lagt fram aðstöðu og aðstoð við leikina. Frá árinu 2011 hefur síðan verið kynnt verkefnið ,,Unified football,, þar sem fatlaðir og ófatlaðir keppa saman í liðum.
Sparkvallaverkefni KSÍ og ÍF var verkefni þar sem opnar æfingar voru í boði fyrir alla og var markmið að ná til barna og unglinga. Ýmis samstarfsverkefni hafa verið sett á fót þar sem knattspyrnufélög taka þátt, m.a. sér æfingar fyrir börn með sérþarfir og æfingar sérstaklega fyrir stelpur með sérþarfir.
Árið 2018 er 50 ára afmælisár Special Olympics samtakanna og reynt verður að vekja athygli á starfi Special Olympics. Árið 2019 er 30 ára afmælisár Special Olympics á Íslandi en þá verða Heimsleikar SOI í Abu Dhabi þar sem taka þátt 38 Íslendingar í 9 greinum, m.a, knattspyrnu. Tækifærin bíða og börn með sérþarfir eiga kost á því að upplifa glæsileg íþróttamót á vegum Special Olympics sé þeim kynntur sá heimur sem þar opnast. Alls hafa 500 íslenskir keppendur tekið þátt í heimsleikum SOI, konur og karlar, og knattspyrna hefur verið einn af föstum þáttum þar.
Knattspyrnusamband Íslands er afar stolt af samstarfinu við ÍF og Special Olympics og vill hvetja áhugasama til að kynna sér þá möguleika sem eru til staðar fyrir fatlaða - til knattspyrnuiðkunar eða annarrar þátttöku í knattspyrnustarfi.