A karla - 2-3 tap gegn Noregi
Ísland tapaði 2-3 gegn Noregi á Laugardalsvelli, en það voru Alfreð Finnbogason og Gylfi Sigurðsson sem skoruðu mörk Íslands.
Nokkuð jafnræði var með liðunum til að byrja með og skiptust liðin á að vera með boltann. Eftir um átta mínútur komst Ísland í frábæra skyndisókn eftir hornspyrnu Norðmanna. Jón Daði kom boltanum fyrir en Kristoffer Ajer var réttur maður á réttum stað og bjargaði Noregi.
Það var síðan eftir 15 mínútur sem Noregur skoraði fyrsta mark leiksins. Bjorn Maars Johnsen átti þá mjög gott skot sem endaði í netinu. 0-1 fyrir Noregi. Þremur mínútum síðar átti Jóhann Berg Guðmundsson fínt skot fyrir utan teig en boltinn fór framhjá.
Leikurinn hélt áfram að vera jafn og fá færi litu dagsins ljós. Eftir hálftíma leik tók Rúrik Gíslason á sprett upp vinstri kantinn, komst inn í teiginn þar sem brotið var á honum og benti Jonas Eriksson á vítapunktinn. Alfreð Finnbogason steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan því orðin jöfn.
Ísland tóku aðeins stjórnina eftir markið, en fátt var um færi og staðan því 1-1 í hálfleik. Tvær skiptingar voru gerðar í hálfleik. Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson komu inn á og útaf fóru Ragnar Sigurðsson og Alfreð Finnbogason.
Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað en eftir um fimm mínútna leik fékk Ísland hornspyrnu, en upp úr henni átti Hörður Björgvin Magnússon góðan skalla rétt yfir mark Norðmanna. Aðeins um mínútu síðar kom Tarik Elyounoussi boltanum í netið, en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Fimm mínútum síðar spiluðu strákarnir sig frábærlega upp völlinn og endaði sóknin með skoti frá Rúrik Gíslasyni sem fór yfir mark Noregs. Stuttu síðar átti Stefan Johansen frábært skot í stöng íslenska marksins.
Nokkrum mínútum síðar komu þeir Gylfi Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason inná, en útaf fóru þeir Jón Daði Böðvarsson og Rúrik Gíslason. Það tók Gylfa aðeins sjö mínútur að setja boltann í netið. Birkir Bjarnason átti þá skot að marki sem Jarstein náði ekki að halda. Gylfi tók frákastaði og vippaði honum yfir Jarstein og í markið. Stuttu síðar voru strákarnir nálægt því að bæta við þriðja markinu. Meðbyrinn svo sannarlega með Íslandi eftir markið.
En Norðmenn komust aftur vel inn í leikinn og þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum skoraði Joshua King og jafnaði metin fyrir Noreg. Strax í kjölfarið kom Samúel Kári Friðjónsson inná en Emil Hallfreðsson fór útaf. Norðmenn gengu á lagið eftir jöfnunarmarkið og tóku forystuna nokkrum mínútum síðar er Alexander Sorloth skoraði. 2-3 fyrir Noregi. Albert Guðmundsson kom eftir það inná, en BIrkir Bjarnason fór útaf. Lítið markvert gerðist til loka leiks og 2-3 tap staðreynd.