Knattspyrnusumarið okkar
Öll höfum við beðið knattspyrnusumarsins 2018 með mikilli eftirvæntingu og nú er þetta loks að bresta á. Íslandsmótið er að hefjast og það eru leikir framundan í Pepsi-, Inkasso- og öðrum deildum, auk þess sem Mjólkurbikarinn er kominn á fleygiferð. Pepsi-deild karla byrjar með látum að Hlíðarenda þar sem Íslandsmeistarar Vals taka á móti KR, og Stjarnan mætir Keflavík í Garðabænum. Síðan koma leikirnir í röðum og veislan hafin fyrir alvöru.
Íslensk knattspyrna hefur svo sannarlega verið sviðsljósinu á síðustu misserum og áhugi erlendra fjölmiðla fer enn vaxandi. Áhuginn snýr ekki eingöngu að landsliðunum okkar. Það er til marks um þennan mikla áhuga að sjónvarpsteymi frá m.a. Kína og Bandaríkjunum eru að störfum á landinu ti að fjalla um íslenska knattspyrnu, uppbyggingarstarf félaganna, þjálfun og mannvirki, og munu þessi sjónvarpsteymi sækja leiki í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar um helgina með að fyrir augum að fanga þessa miklu ástríðu sem við Íslendingar höfum fyrir þessari vinsælustu íþrótt heims.
Við erum að fara inn í virkilega skemmtilegt fótboltasumar. Njótum þess að mæta á knattspyrnuvelli landsins og styðja okkar lið og íslenska knattspyrnu.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ