Fallinn félagi - Kveðja frá KSÍ
Fallinn er frá knattspyrnukappinn Sigurlás Þorleifsson frá Vestmannaeyjum. Sigurlás, sem var fæddur 1957, lék sinn fyrsta leik fyrir ÍBV í júlí 1974, og vantaði þá nokkra daga í að verða 17 ára.
Lási, eins og hann var ævinlega kallaður, skoraði 70 mörk í efstu deild og þar á meðal skoraði hann þrisvar sinnum fjögur mörk í einum og sama leiknum. Hann varð þrisvar markahæstur í efstu deild, árið 1979 með Víkingi Reykjavík og 1981 og 1982 með ÍBV, og varð bikarmeistari með ÍBV árið 1981, skoraði þá 2 mörk í 3-2 sigri á Fram í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli.
Jafnframt lék Sigurlás 10 landsleiki á árunum 1979-1982 og skoraði í þeim 2 mörk. Sigurlás starfaði einnig við þjálfun, þjálfaði ÍBV og Stjörnuna í efstu deild karla og ÍBV í efstu deild kvenna.
Knattspyrnusamband Íslands sendir fjölskyldu og vinum Lása hugheilar samúðarkveðjur. Knattspyrnuhreyfingin öll syrgir góðan félaga.