FC Sækó mætir FC Kreisí í fjáröflunarleik í Egilshöll
Knattspyrnufélagið FC Sækó verður með fjáröflunarleik í Egilshöll laugardaginn 14. apríl næstkomandi klukkan 15.00. Tilgangurinn er að safna fé svo FC Sækó geti farið í æfinga- og keppnisferð til Noregs í sumar.
Á laugardaginn mætir FC Sækó, FC Kreisí. Liðsmenn FC Kreisí eru meðal annarra Stefán Eiríksson borgarritari, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Vinstri grænna, Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins auk oddvita annarra flokka sem bjóða fram til borgarstjórnarkosninga í vor. Þá hefur Eiður Smári Guðjohnsen, knattspyrnumaður, og Sveppi staðfest þátttöku í leiknum.
Þetta verður æsispennandi leikur þar sem leikgleðin verður í fyrirrúmi með það að markmiði að safna fyrir fimm daga æfinga- og keppnisferð FC Sækó til Bergen í Noregi.
Aðgangseyrir byggist á frjálsum framlögum áhorfenda!