• mið. 11. apr. 2018

KSÍ og Parkinsonsamtökin í samstarf

Parkinsonsamtökin undirbúa fjáröflun fyrri Parkinsonsetur – KSÍ leggur verkefninu lið með þátttöku í árveknisátaki

11. apríl ár hvert er Alþjóðlegi Parkinson-dagurinn. Það er Knattspyrnusambandi Íslands mikil ánægja að tilkynna á þessum sérstaka degi að KSÍ hafi ákveðið verið að ganga til samstarfs við Parkinson-samtökin á Íslandi um samfélagslegt verkefni. Parkinsonsamtökin á Íslandi vinna þessa dagana að undirbúningi fjáröflunar fyrir sérstakt Parkinsonsetur og mun KSÍ leggja því þarfa verkefni lið með því að taka virkan og öflugan þátt í árveknisátaki um verkefnið og Parkinson-sjúkdóminn.  Nánari upplýsingar um verkefnið og þátt KSÍ verða kynntar síðar.

Í stefnu KSÍ varðandi samfélagsleg verkefni segir m.a. KSÍ hafi ákveðið að velja tiltekin samfélagsleg verkefni á hverju ári og einbeita sér að þeim. „Gerður er samningur við tiltekna aðila um afmörkuð verkefni. Með þessari stefnumörkun er KSÍ að einbeita sér að tilteknum verkefnum í tiltekinn tíma, og leggja kraft í þau til að þátttakan vegi sem þyngst og geri viðkomandi verkefni og samfélaginu raunverulegt og áþreifanlegt gagn“.  Samstarfið við Parkinsonsamtökin er í samræmi við þessa stefnumörkun. 

Guðni Bergsson, formaður KSÍ:  „Við hlökkum mjög til samstarfsins við Parkinsonsamtökin og er það okkur sannur heiður að geta hjálpað til við starf þessara mikilvægu samtaka í þessu verðuga verkefni sem er framundan.“

Stefna KSÍ varðandi samfélagsleg verkefni (hlekkur)

https://www.ksi.is/um-ksi/log-og-reglugerdir/samfelagsleg-verkefni/

Um Parkinsonsamtökin

Parkinsonsamtökin á Íslandi voru stofnuð árið 1983. Markmið samtakanna eru meðal annars að aðstoða fólk með Parkinsonveiki og aðstandendur þeirra, veita fræðslu, styðja við rannsóknir vegna sjúkdómsins og vera sameiginlegur vettvangur félagsmanna.

Parkinsonsamtökin eru opin öllum sem eru með parkinsonsjúkdóm og skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Samtökin bjóða upp á öflugt félagsstarf, fræðslu, ráðgjöf, heilsueflingu og jafningjastuðning í gegnum Stuðningsnet sjúklingafélaganna. Aðsetur Parkinsonsamtakanna er í Setrinu, Hátúni 10, en á skrifstofunni eru tveir starfsmenn, verkefnastjóri og félagsráðgjafi. 

Vefur Parkinsonsamtakanna (hlekkur)

http://parkinson.is/