• mið. 11. apr. 2018

Fjögur verkefni fá úthlutað styrk frá UEFA

KSÍ fékk á dögunum viðurkenningu frá UEFA fyrir háttvísi íslenskra landsliða og félagsliða í keppnum á vegum sambandsins tímabilið 1. júlí 2016 – 30. júní 2017.

Þrjú lönd fengu verðlaunin og fékk hvert þeirra 50 þúsund evrur í styrk frá UEFA til að styrkja „fair play“ verkefni.

Fjölmargar áhugaverðar umsóknir bárust og voru þær bæði mun fleiri og heildarupphæð styrkja hærri en UEFA styrkir, en UEFA lýsti yfir sérstakri ánægju með það. Niðurstaðan var sú að fjögur verkefni fengu úthlutaðan styrk frá UEFA.

Stærsta einstaka verkefni sem fékk styrk er á vegum Þróttar R. og Reykjavíkurborgar. Það tengist móttöku flóttamanna í Reykjavík og hvernig hægt sé að nýta knattspyrnuna til góðra verkefna í því samhengi.

Önnur verkefni sem fengu úthlutun eru verkefni sem stuðla að frekari þáttöku geðfatlaðra í líkamlegri hreyfingu, verkefni sem miðar að því að virkja eldra fólk í að æfa knattspyrnu einu sinni í viku og verkefni sem snýr að því að kynna ungum leikmönnum fyrir háttvísi og góðri hegðun í kjölfar #Metoo. Ætlunin er að fræða leikmenn um tilgang þess að vera góðar ímyndir fyrir aðra og stöðva þau hegðunarmynstur sem bent hefur verið á í umræðunni.