A kvenna - 5-0 sigur í Færeyjum
A landslið kvenna vann góðan 5-0 sigur í Færeyjum í dag, en það voru Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Agla María Albertsdóttir sem skoruðu mörk Íslands.
Stelpurnar náðu strax stjórn á leiknum frá byrjun, voru mun meira með boltann en tókst þó ekki að skapa sér mikið af færum. Eftir um tíu mínútna leik fékk Fanndís boltann fyrir utan teig Færeyja, sendi boltann á Hörpu Þorsteinsdóttur sem sendi hann beint til baka. Fanndís komst í ágætt færi, en skot hennar fór af varnarmanni og framhjá.
Það gekk áfram erfiðlega að skapa færi, Ísland var mun meira með boltann en færeyska liðið lá til baka og gaf fá færi á sér. Á 37. mínútu tókst stelpunum að brjóta þennan varnarmúr á bak aftur. Hallbera Guðný Gísladóttir átti frábæra fyrirgjöf sem markvörður Færeyja komst ekki í og stangaði Gunnhildur Yrsa boltann í markið.
Ísland var nálægt því að bæta við mörkum eftir þetta, en Rakel og Fanndís voru báðar nálægt því að skora en skot þeirra beggja voru varin.
Það tók liðið ekki langan tíma að bæta við öðru marki sínu, en strax eftir tveggja mínútna leik í síðari hálfleik skoraði Rakel eftir fyrirgjöf Svövu Rósar Guðmundsdóttur. Rakel setti boltann í slánna og inn af stuttu færi.
Gunnhildur Yrsa var nálægt því að bæta sínu öðru marki við þremur mínútum síðar. Markvörður Færeyja varði þá aukaspyrnu hennar frábærlega. Stuttu síðar voru Færeyingar nálægt því að skora fyrsta mark sitt.
Á 55. mínútu gerði Ísland fyrstu skiptingu sína í leiknum. Þá kom Agla María inná, en útaf fór Hallbera Guðný. Það tók ekki Öglu Maríu langan tíma að setja sinn blett á leikinn. Þremur mínútum eftir að hún kom inn á átti hún góða aukaspyrnu sem Harpa skallaði í netið. Þetta var það síðasta sem Harpa gerði í leiknum, en fljótlega eftir markið kom Elín Metta Jensen inn á í hennar stað.
Áfram hélt Ísland að skapa sér færi, en Glódís Perla Viggósdóttir var nálægt því að bæta við marki eftir hornspyrnu, en skot hennar fór yfir. Sandra Sigurðardóttir var síðan vel á verði og varði frábærlega skot færeyska liðsins. Á 72. mínútu gerði Freyr Alexandersson síðustu skiptingu Íslands, en Hlín Eiríksdóttir kom inná í stað Svövu Rósar. Skömmu síðar átti síðan Gunnhildur Yrsa skalla í slá.
Íslenska liðið setti mikla pressu á færeysku vörnina það sem eftir lifði leiks og tókst Öglu Maríu að skora fjórða mark Íslands utan af kanti á 90. mínútu. Staðan því orðin 4-0 fyrir Íslandi. Fanndís bætti síðan við fimmta markinu rétt fyrir lokaflautið með góðu skoti úr teignum.
Góður 5-0 sigur staðreynd í Færeyjum og sex stig úr leikjunum tveimur í apríl. Ísland var mun betri aðilinn í leiknum, stjórnaði honum allan tímann og skoraði fimm góð mörk.