Breytingar á knattspyrnulögunum 2018
"Abba" spyrnuröð tekin upp í vítakeppnum Mjólkurbikarsins
Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda, IFAB, hefur gert nokkrar breytingar á knattspyrnulögunum, sem taka gildi á komandi keppnistímabili í mótum KSÍ. Hér verður stiklað á stóru yfir helstu breytingarnar en þær eru síðan allar tíundaðar í meðfylgjandi skjali. Það skal tekið fram að flestar breytingarnar sem IFAB gerir eru varðandi það sem kallað er VAR (Video assistant refereeing), en til einföldunar er búið að taka þær út úr skjalinu enda eiga þær ekki við í mótum hér á landi.
Viðbótarleikmannaskipti í framlengingu leikja
Heimilt verður að skipta viðbótarleikmanni inn á í framlengingu leikja. Á þetta við um Mjólkubikar KSÍ karla og kvenna þar sem heimilt verður að skipta inn á fjórða varamanni og í úrslitakeppni 4. deildar karla þar sem gefst möguleiki á sjöttu skiptingunni.
Rafrænn búnaður til mælinga
Leyfilegt verður að nota rafrænan búnað til mælinga á frammistöðu og staðsetningum leikmanna svo eitthvað sé nefnt. Búnaðurinn verður að uppfylla alþjóðlegan gæðastaðal, IMS. Ef slíkar merkingar eru ekki á búnaðinum er notkun hans óheimil. Jafnramt er heimiluð notkun á litlum lófatölvum eða litlum samskiptatækjum í boðvöngum til þess að taka á móti upplýsingum úr EPTS -búnaðinum sem einungis má nýta í taktískum eða læknisfræðilegum tilgangi með velferð leikmanna í huga. Vakin er athygli á að stranglega er bannað að nota þessi tæki til að fylgjast með beinum útsendingum knattspyrnuleikja.
„ABBA-spyrnuröð“ í vítaspyrnukeppnum
Á komandi keppnistímabili verður notast við svokallaða ABBA-nattspyrnuröð í vítaspyrnukeppnum í öllum mótum á vegum KSÍ. Keppni í Mjólkurbikarnum hefst fimmtudaginn 12. apríl og mun þessi breyting taka gildi þá. Breytingin fellst í því að eftir að fyrsta spyrnan hefur verið tekin skiptast liðin á að taka tvær spyrnur hvort þar til úrslitin eru ráðin.
Markverði heimilt að handleika boltann að nýju eftir að hann hefur hrokkið frá honum
Markvörðum verður nú heimilt að handleika boltann á ný eftir að hann hrekkur af höndum þeirra, viljandi eða óviljandi.
Notkun gulra og rauðra spjalda á boðvangi
Dómurum er nú heimilt að sýna forráðamönnum liða sem eru á leikskýrslu gul og rauð spjöld til að gefa áminningar og brottvísanir til kynna. Í áhersluatriðum dómaranefndar fyrir komandi tímabilið er lögð mikil áhersla á stöðva óviðeigandi hegðun leikmanna og forráðamanna. Sérstakur gaumur verður gefinn að óviðeigandi hegðun forráðamanna á boðvangi og dómurum hafa verið gefin skýr fyrirmæli um að slík hegðun verður ekki liðin. Þetta er fyllilega í samræmi við þær áherslur sem FIFA og UEFA hafa gefið út.
Krjúpa í innkasti
Leikmanni er óheimilt að krjúpa á kné þegar innkast er tekið.