• mán. 09. apr. 2018
  • Landslið

A kvenna - Leikur gegn Færeyjum á þriðjudag

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Kvennalandsliðið er nú komið til Færeyja en framundan er leikur við heimakonur í undankeppni HM.Þetta er seinni leikur Íslands á þessu ferðalagi en sem kunnugt er voru Slóvenar lagðir að velli, á föstudaginn, 2 – 0.

Liðið æfði á laugardagsmorgun og hélt svo áleiðis til Zagreb seinni partinn áður en flogið var til Kaupmannahafnar.Þar var áð eina nótt og aðeins skoðað sig um í þessari fyrrum höfuðborg Ísland áður en flogið var, seinni partinn i gær til Færeyja.Þar er hópurinn núna og framundan í dag er hefðbundinn undirbúningur sem m.a. inniheldur æfingu á keppnisvellinum, Tórsvelli í Þórshöfn.

Það má segja að kvennaknattspyrna sé að slíta barnsskónum í Færeyjum en fyrsti landsleikurinn var gegn Íslandi árið 1986 þar sem Ísland vann 6–0 sigur á Kópavogsvelli.Því má halda fram að þessi landsleikur, og sá sem fylgdi í kjölfarið á Akranesvelli tveimur dögum siðar þar sem Ísland vann 2–0, hafi verið óopinber landsleikur þar sem Færeyjar urðu ekki aðili að FIFA fyrr en tveimur árum síðar.

Þessir landsleikir eru engu að síður skráðir sem opinberir landsleikir, bæði hjá FIFA og KSÍ.Það var svo ekki fyrr en 9 árum síðar, árið 1995,að Færeyjar léku kvennalandsleiki að nýju í forkeppni fyrir EM 1997.Aftur kom svo hlé áður en kvennalandsliðið lék aftur árið 2004 og árið 2006 tók færeyska kvennalandsliðið þátt í fyrsta skiptið í UEFA keppni þegar það lék í forkeppni fyrir EM 2009.Færeyjar tóku í fyrsta skiptið þátt í forkeppni fyrir HM kvenna 2015 og lék sína fyrstu leiki í þeirri keppni árið 2013. Liðið tekur því þátt í sinni annarri HM undankeppni um þessar mundir.

Þegar Ísland og Færeyjar mættust á Laugardalsvelli í september á síðasta ári var það í fyrsta skiptið sem að þjóðirnar mættust í mótsleik hjá A landsliðum kvenna.Vináttulandsleikirnir tveir árið 1986, sem áður hefur verið minnst á, voru fyrir það einu viðureignir þjóðanna.

Færeyska deildin hófst 11. mars og hafa verið leiknar 4 umferðir í efstu deild kvenna, „Betri deildin“, en hana skipa 6 lið.  Í efstu sætunum og taplaus enn sem komið er eru KÍ og EB/Streymur/Skála.  Síðarnefnda liðið er núverandi meistari og rauf þar með ótrúlega sigurgöngu KÍ sem hafði unnið deildina 17 ár í röð.

Flestir leikmenn í færeyska hópnum sem mætir Íslendingum eru frá EB/Streymur/Skála eða fjórir talsins og þrír koma frá KÍ.  Þá eru sex leikmenn sem koma frá erlendum félögum.

Leikurinn á þriðjudaginn er því aðeins í fjórða skiptið sem þessar frændþjóðir mætast í A landsleik kvenna.Leikið verður á aðalvellinum í Þórhöfn, Tórsvelli, og hefst leikurinn kl. 15:00 að íslenskum tíma, þriðjudaginn 10. apríl.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV