A kvenna - Flottur 2-0 sigur gegn Slóveníu
Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
A landslið kvenna vann góðan 0-2 sigur á Slóveníu í dag, en leikið var á Sportni Park Lendava í Slóveníu. Það voru Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Rakel Hönnudóttir sem skoruðu mörk Íslands í fyrri hálfleik.
Stelpurnar tóku stjórn á leiknum strax á fyrstu fimm mínútunum og voru oft á tíðum nálægt því að skapa sér góð færi. Það var svo eftir 15 mínútur sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Eftir langt innkast frá Sif Atladóttur og darraðadans inn í teig Slóveníu datt boltinn fyrir Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur sem kom honum yfir línuna.
Ísland hélt áfram að vera mun betra liðið í leiknum, voru meira með boltann og héldu boltanum vel. Bæði Agla María Albertsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir fengu fín færi sem markvörður Slóvena varði vel. Það var svo eftir annað langt innkast sem annað mark Íslands kom á 38. mínútu. Boltinn datt þá fyrir Rakel Hönnudóttur sem hamraði hann í netið. Staðan því orðin góð og tveggja marka forusta í hálfleik.
Liðið hélt uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og voru nálægt því að skora eftir góða aukaspyrnu Fanndísar á 50. mínútu, en Sara Björk var mjög nálægt því að koma tánni í boltann. Eftir þetta komst Slóvenía betur inn í leikinn, náðu að pressa ágætlega á vörn Íslands og fengu fínt færi, en skutu framhjá.
Freyr Alexandersson gerði fyrstu skiptingu sína í leiknum á 62. mínútu. Þá kom Harpa Þorsteinsdóttir inná í stað Öglu Maríu. Fimm mínútum síðar kom svo Elín Metta Jensen inná í stað Selmu Sól Magnúsdóttur.
Leikurinn jafnaðist fljótt aftur og meiri kraftur kom í sóknarleik Íslands með innkomu Hörpu og Elínar, en sú fyrrnefnda var ekki lengi að koma sér í færi en skot hennar var varið af markverði Slóveníu. Stuttu síðar fékk Ísland tvö dauðafæri með mjög stuttu millibili, fyrst var skot Hallberu Guðnýjar Gísladóttur varið og síðan komst varnarmaður fyrir boltann áður en Harpa gat potað honum yfir marklínuna.
Það voru ekki mörg færi sem litu dagsins ljós eftir þetta, en Elín Metta var nálægt því að skora þriðja mark Íslands í uppbótaríma. Góður 0-2 útisigur staðreynd og gott fararnesti í leikinn gegn Færeyjum á þriðjudaginn, en hann er einnig leikinn ytra.